Innlent

Með sýknu verði þjóðin vitni að réttlæti

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Málflutningi í endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála lauk í dag og eru málin nú höndum dómara Hæstaréttar. Verjandi í málinu segir að ef sakborningar verði sýknaðir verði þjóðin vitni að réttlæti. Í málflutningi í dag var áfram lögð áhersla á að framburðir sakborninganna hefðu ekki verið áreiðanlegir.

Tryggvi Rúnar Brynjarsson, barnabarn Tryggva Rúnars, var viðstaddur málflutning bæði í dag og í gær og hefur meðal annars skrifað mastersritgerð um dagbækur afa síns. Hann segir sérkennilegt að vera í dómsal og heyra fólk koma orðum að lýsingum sem hann hefur lesið margoft. Hann segir að sýkna í málinu dugi ekki til ef rétta á hlut afa hans, sem lést árið 2009.

„Það er ennþá rosalega margt sem mér finnst að dómsvöld eigi að taka afstöðu til. Þetta í raun og veru, að segja að rannsóknin hafi verið gölluð og segja að játningar og framburðir hafi verið óáreiðanlegir. Það eitt og sér fjallar ekki um þessa sviptingu á frelsi og það að vera ranglega dæmdur og þurfa að lifa í samfélaginu. Það byrjar ekki einu sinni að komast nálægt því að kafa ofan í þann hluta,“ segir Tryggvi Rúnar.

Tryggvi Rúnar Brynjarsson, barnabarn Tryggva Rúnars Leifssonar.Vísir/Vilhelm
Hann segist jafnframt vona að einhvern veginn sé hægt að viðurkenna það ranglæti sem afi hans hafi mátt sæta og að fjölskyldan muni halda áfram með málið eins langt og hægt er innan dómskerfisins.

„Svo er hitt að maður verður að halda áfram að vekja athygli á sumum hlutum sem hefðu getað farið betur og það er kannski eitthvað sem þarf að eiga sér stað utan dómsals.“

Gaman að allir séu sammála um meginatriði

Jón Magnússon, verjandi Tryggva Rúnars Leifssonar, telur að ef sýknað verði muni þjóðin fá að verða vitni að réttlæti. Hann telur jafnframt að sýkna geti aukið traust almennings á dómstólum í landinu.

„Þetta mál hefur alltaf verið eins og ákveðinn fleinn í holdi stórs hluta þjóðarinnar. Fólk hefur ekki verið sátt við það og það er náttúrulega svo margt í þessu máli sem sýnir fram á það að þarna voru hlutirnir ekki með eðlilegum hætti. Þarna voru játningar þvingaðar fram. Það voru píningar, það var torture, hreinlega þó ekki sé neitt annað en það í hve langri gæsluvarðhaldsvist hin grunuðu voru. Minn skjólstæðingur var í yfir 600 daga, hann var í tæp tvö ár í einangrun. Það er ekkert annað en hreinlega algjör torture.“

Jón segir jafnframt að málflutningur hafi gengið vel síðustu daga.

„Það var mjög gaman að fylgjast með því að í öllum meginatriðum þá er samhljóða málflutningur um þessi atriði, bæði saksóknari og verjendur eru sammála um það að þarna hafa orðið veruleg mistök við meðferð þessa máls og það komi ekki til annað en að kveðja upp sýknudóm í málinu.“

Erla Bolladóttir í Hæstarétti í dag.Vísir/Vilhelm

Sýkna vekur jafnframt upp margar spurningar

Erla Bolladóttir var dæmd árið 1980 fyrir rangar sakargiftir og tálmun rannsóknar en fékk mál sitt þó ekki endurupptekið nú. Hún segist líta svo á að ef framburðir hinna sakborninganna séu óáreiðanlegir eigi það þá einnig við um hennar framburði í málinu. Hún segir þó að hún muni aldrei fá sálarró fyrr en endanleg niðurstaða liggi fyrir um að sakborningarnir sex hafi aldrei komið nálægt málunum.

„Með því sem hér gerðist í dag og væntanlega sýknu í framhaldinu þá er um leið ljóst að allir mínir framburðir sem höfðu mikið vægi í sakfellingu sakborninga, þeir eru ómerkir. Þannig að það á bara við um allan minn framburð. Hann er ómerkur. Dómarnir voru byggðir á honum að miklu leyti. Í ákveðnu tilliti þá er ég sýknuð um leið.“

Aðspurð segir Erla þó að erfitt sé að hljóta sálarró.

„Ég fengi frið fyrir þessu máli með endanlegri niðurstöðu um að ljóst sé að við komum hvergi nærri neinu af því sem við játuðum á okkur. Þangað til fæ ég ekki ljúkningu en ég hins vegar harma það að allt líf okkar hafi skuli verið lagt undir frá tvítugu og það sem eftir er. Ég kemst aldrei undan þessu máli en það væri virkileg breyting ef dómsmálayfirvöld sæju ljósið og kæmust að réttri niðurstöðu.“

Erla segir að sýkna verði ákveðin endalok fyrir hana og aðra sakborninga sem og afkomendur þeirra.

„En gagnvart samfélaginu þá hlýtur sýkna að vekja margar spurningar um hvernig gat þetta þá gerst. Mínu m hluta er þá lokið en væntanlega munu aðrir standa upp og krefjast svara um ýmislegt sem komið hefur fram um hvernig þetta gerðist.“


Tengdar fréttir

„Þetta var dómsmorð“

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar, fór fram á að skjólstæðingur sinn verði ekki aðeins sýknaður heldur lýstur saklaus við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti Íslands í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.