Innlent

Vill Val í 16 ára fangelsi og börnin 40 milljónir í bætur

Kolbeinn Tumi Daðason og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari. Fréttablaðið/Anton Brink
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari og saksóknari í máli embættisins gegn Val Lýðssyni fyrir að bana bróður sínum Ragnari í mars síðastliðnum, krefst þess að Valur verði dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir brot sitt. Þetta kom fram í munnlegum málflutningi Kolbrúnar í Héraðsdómi Suðurlands síðdegis í dag.

Aðalmeðferð var framhaldið í dag en aðeins eitt vitni átti eftir að bera vitni. Þýski réttarmeinafræðingurinn Sebastian Kunz sagði í troðfullum dómssal að þung högg á höfuð og síðu hefði orsakað dauða Ragnars.

Kolbrún sagði í málflutningi sínum að Val, sem ber við minnisleysi sökum áfengisneyslu, hefði ekki getað dulist að árásin gæti leitt til dauða bróður síns. Fordæmi væru fyrir sextán ára fangelsi fyrir manndráp hér á landi.

Sigurður Kári Kristjánsson gætir hagsmuna barna Ragnars í málinu. Hann krafðist fjörutíu milljóna króna í bætur fyrir þeirra hönd.

Ólafur Björnsson, lögmaður Vals, fór fram á að hann yrði sýknaður um manndráp eða að hann verði beittur vægustu viðurlögum sem lög kunna að leyfa.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Gýgjarhólsbóndinn sér mikið eftir öllu saman

Valur Lýðsson, sem ákærður er fyrir að hafa banað Ragnari bróður sínum á föstudaginn langa, kveðst aldrei hafa borið þungan hug til hans. Geðlæknir segir Val sakhæfan. Ragnari var banað í þvottahúsinu heima hjá Vali á Gýgjarhóli.

Þung högg á höfuð og síðu banameinið

Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur segir engan vafa leika á því að þung högg á höfuð og hægri síðu drógu Ragnar Lýðsson til bana þann 31. mars síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×