Innlent

Dagur gefur lítið fyrir ólgu í borgarpólitíkinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. vísir/vilhelm
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gefur ekki mikið fyrir þá ólgu sem hefur verið í borgarpólitíkinni í sumar. Þetta sagði Dagur í Morgunvakt Rásar 1 í dag en strax á fyrsta fundi borgarstjórnar í júní bárust ásakanir frá minnihlutanum um trúnaðarbrest meirihlutans og starfsmanna borgarinnar sem síðar var beðist afsökunar á.

Eftir það hafa verið til umræðu mál sem varða dóm Héraðsdóms Reykjavík þar sem áminning á hendur fjármálastjóra borgarinnar var felld úr gildi, brot borgarinnar á jafnréttislögum við ráðningu á borgarlögmanni og ásakanir um dónaskap og einelti.

Dagur kallaði þessa ólgu upphlaup sem fyrst og fremst hefur snúist um formsatriði. „Og týpískar lýðskrumslegar upphrópanir, að mínu mati og minnir mig á þegar Vigdís Hauksdóttir fór á fyrsta daginn sinn á þingi og sagðist sakna þess tíma þegar starfsfólk Alþingis ávarpaði ekki þingmenn. Þetta er einhver hofmóður sem ég kann ekki við og mér nánast hætti að lítast á blikuna þegar einhver fór að segja háttvirtur borgarfulltrúi í sölum borgarstjórnar. Við erum bara í augnhæð við borgarbúa og við eigum að koma fram við hvort annað af jafnræði og virðingu og ég vona að þetta rjúki af eins og einhver reykur,“ sagði Dagur í Morgunvakt Rásar 1.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, fór fram á afsökunarbeiðni frá borgarritara og skrifstofustjóra borgarstjóra á fundi borgarráðs í síðustu viku. Sakaði hún borgarritara og skrifstofustjórann um aðdróttun og röngum alvarlegum ásökunum sem birtust í fjölmiðlum eftir dóm í máli fjármálastjóra Ráðhússins gegn Reykjavíkurborg.

Dómurinn á málinu féll í sumar en þar var Reykjavíkurborg dæmd til greiðslu bóta og ákvað að áfrýja ekki. Í framhaldinu ákvað borgin að hefja rannsókn á einelti sem fjármálastjórinn á að hafa orðið fyrir en lögmaður fjármálastjórans hefur skorað á borgina að láta af þeirri rannsókn. Í bréfi lögmannsins kom fram að það stjórnsýslumál sé rekið vegna beiðni skrifstofustjóra á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, sem veitti honum áminninguna. Gagnrýnir lögmaðurinn að málinu hafi ekki lokið hjá borginni með dómsmálinu og að beiðnin byggi á fullyrðingum um að fjármálastjórinn hefði kvartað undan einelti af hálfu skrifstofustjórans. Sagði lögmaðurinn að fjármálastjórinn hefði aldrei lagt fram slíka kvörtun.

Í Morgunvaktinni sagði Dagur að meirihlutinn í borgarstjórn hefði náð saman um þá stefnu sem meirihluti borgarbúa vill ná fram, það er að Reykjavík verði framsækin og græn borg, annað sé aukaatriði.

Vinnulag sem nýjum finnst óvanalegt

Dagur var spurður út í gagnrýni þess efnis að meirihlutinn, sem Samfylkingin hefur skipað í átta ár, sé orðin of heimaríkur og með of marga aðstoðarmenn í kringum sig.

Benti Dagur á að borgarstjórinn hafi einn aðstoðarmann, og þannig hafi það verið í áratugi, á meðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar séum með tvo til þrjá og að verja þurfi hálfum milljarði á ári í hóp aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar.

Hann sagði skrifstofur og svið borgarinnar hafa verið sameinuð sem hefur leitt til þess að sum svið og skrifstofur eru orðnar dýrari í rekstri en fyrir tíu árum. Sagði Dagur það eðlilegt því hver eining hefði stækkað við sameininguna.

Spurður hvers vegna tillögur minnihlutans hefðu ekki fengið hljómgrunn í borgarráði sagði Dagur að tillögum minnihlutans hefði verið vísað til sviða og ráða borgarinnar sem þær heyri undir. Þannig hafi vinnulagið verið til nokkurra ára og komi kannski spánskt fyrir sjónir þeirra sem eru nýir í borgarpólitík.

Ef málin sem send eru á svið eða ráð borgarinnar koma til með að kosta borgina frekari fjárútlát eða nýjungar í þjónustu þá þarf að bera það undir borgarráð sem ber ábyrgð á fjármálum.



Sagði gjána óþarfa plágu

Dagur var spurður út í þá gjá sem virðist vera á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Dagur sagði þessa umræða víða í heiminum í dag þar sem gert sé út þessa tortryggni í pólitík. Hann kallaði þetta plágu sem honum finnst óþarfi og vonar að nái sem minnstu flugi. Sagði hann Íslendinga þarfnast þess að Reykjavík verði öflug háskólaborg þar sem ungt fólk getur leitað sér menntunar og fái tækifæri til að uppfylla drauma sína.

Sagði Dagur að flugvallarmálið dýpki þessa gjá en að landsmenn ættu að nálgast þá deilu á hagkvæmari máta þar sem efla megi ferðaþjónustu á landsbyggðinni með betri tengingu landsbyggðarinnar við millilandaflug.

Spurður hvort að hann hefði tekið þátt í því að dýpka þessa sagðist Dagur hafa staðið fast á því hverjir hagsmunir borgarþróunar eru til langs og skamms tíma. „Það skiptir okkur öll máli að Reykjavík blómstri,“ sagði Dagur.



Takmarka gistingu

Varðandi umræðu um uppbyggingu borgarinnar sagði Dagur að borgin hefði ákveðið að takmarka hversu mikill hluti af húsnæði má fara undir hótel og gistihús.

Hann sagði borgina hafa fyrir fjórum árum áskilið sér rétt til að setja skorður við uppbyggingu hótela á vissum svæðum þegar komið var nóg af þeim. Svæði þar sem öflug hótel eru geta verið miklir mannlífsstaðir en geta þó orðið til þess að miðborgarsvæði verði einsleitt.

Í Kvosinni, á Laugavegi og Hverfisgötu hefur til að mynda verið gefið út að 23 prósent af byggðum fermetrum megi fara undir gistingu.

Því sé verið að byggja hótel á Grensásvegi og Suðurlandsbraut, það sé gert til að koma til móts við eftirspurn ferðamanna um gistingu en einnig til að sporna við einsleitni í miðborginni.



Tekið á heimagistingu

Hann sagði AirBnB hafa vaxið gríðarlega hratt á undanförnum árum. Ekki bara í Reykjavík heldur víða um heim en ekki megi gleyma því að það hefur gert fjölskyldum kleift að borga húsnæðislánin sín með útleigu og bætt fjárhag þeirra þannig að þær komast jafnvel saman í sumarfrí.

Þó þurfi að leita jafnvægis og það var gert með því að leyfa fólki að leigja heimili sín út í 90 daga án þess að fá tilskilin leyfi en þó þurfti að gefa það upp til skatts. Ef um var að ræða heilsársleigu þurfti að fá leyfi.

Hann sagði að undanfarið hafi verið reynt að sporna við þeim sem hafa reynt að koma sér undan því að greiða skatt af útleigu til ferðamanna og aukið eftirlit embættis sýslumanns sé farið að bíta á. Það hafi orðið til þess að fjöldi íbúða sem hafa verið undir yfirborðinu séu farnar á sölu sem leitt hafi til ákveðinnar kulnunar á fasteignamarkaði að mati Dags.

„Þeir sem voru að pukrast með þetta áður eru ekki mikið að segja frá því þegar þeir laumast úr því aftur,“ sagði Dagur.

Hér má hlusta á Morgunvakt Rásar 1 í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×