Innlent

Sögð hafa svikið 30 milljónir af aldraðri frænku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri 10. september.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri 10. september. Fréttablaðið/Pjetur
Akureyrsk kona á fimmtugsaldri hefur verið ákærð fyrir fjársvik með því að hafa blekkt aldraða frænku sína til að láta sig hafa 30 milljónir króna.

Lánið, sem átti að nota til húsnæðiskaupa, ætlaði konan að endur­greiða eftir þjá mánuði þegar hún hefði fengið greiðslumat og bankalán. Hún var bæði atvinnulaus og á örorkubótum.

Aldraða konan á að hafa tekið peningana út í reiðufé og afhent frænku sinni í plastpoka. Peningana notaði konan meðal annars til að kaupa bifreið og tölvu.

Í ákærunni segir að þegar gamla konan hafi farið að inna frænku sína eftir endurgreiðslu hafi sú síðarnefnda neitað að hafa tekið við fénu. Konan heimsótti aldraða frænku sína í kjölfarið, í fylgd móður sinnar, og fékk hana til að skrifa undir skuldayfirlýsingu um 30 milljóna vaxtalaust lán, veitt af fúsum og frjálsum vilja, og án upplýsinga um gjalddaga þess.

„Með þessu atferli sveik ákærða út úr brotaþola nefnda fjárhæð vitandi um ómöguleika sinn að greiða fjárhæðina til baka og notaði sér andlegt og líkamlegt ástand brotaþola, hrekkleysi hennar og fákunnáttu í peningamálum til að afla sér þessara fjármuna með svikum,“ segir í ákæru.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra 10. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×