Fótbolti

Lars reiður út af leka hjá norska liðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lars þarf að tukta menn til.
Lars þarf að tukta menn til. vísir/getty
Norska landsliðið er á flugi undir stjórn Lars Lagerbäck og hefur nú unnið fimm leiki í röð. Svíinn er þó ekki kátur enda heldur byrjunarliðið hans áfram að leka út.

Noregur skellti Kýpur, 2-0, í Þjóðadeildinni í gær og handbragð Lars á liðinu er að verða afar áberandi. Norðmenn litu mjög vel út og hefðu getað unnið mun stærra.

Sex tímum fyrir leik var byrjunarlið Lars aftur á móti komið í birtingu hjá TV2. Þetta er í annað sinn sem byrjunarlið Lars lekur út. Það gerðist fyrir vináttulandsleik í sumar en Svíinn er afar óhress að það sé enn leki og það fyrir alvöruleik.

„Það er miður að þetta hafi gerst. Það leggja allir mikið upp úr því að greina andstæðingana og oft geta litlu hlutirnir skipt öllu máli. Það gæti því orðið dýrt fyrir okkur ef liðið heldur áfram að leka út,“ sagði Lagerbäck eftir leikinn.

Álíka mál kom upp hjá Lagerbäck á Íslandi fyrir fyrri umspilsleikinn gegn Króötum um laust sæti á HM. Þá sagði Sveppi í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu 977 að Eiður yrði ekki í liðinu en hann hafði verið í liðinu í undanförnum leikjum. Þetta útspil Sveppa vakti ekki mikla lukku hjá Lars og Heimi á þeim tíma.

Eiður sjálfur var líka ósáttur við vin sinn eftir leik og kallaði hann fávita. Svo brosti hann og gekk á brott úr viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×