Innlent

Stjórnarskrá Íslands sker sig úr varðandi skort á framsalsheimildum

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Björg Thorarensen prófessor við HÍ.
Björg Thorarensen prófessor við HÍ. Háskóli Íslands
„Það er margt ólíkara í stjórnskipun Norðurlandanna en almennt hefur verið talið. Grunnurinn er sameiginlegur en birtist og hefur þróast með ólíkum hætti,“ segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við HÍ.

Björg er önnur tveggja ritstjóra nýrrar bókar sem fjallar um samanburð á stjórnarskrám Norðurlandanna. Bókin er á ensku en auk Bjargar eru fimm höfundar sem eru norrænir fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar.

„Við hittumst reglulega á málþingum og höfum haldið ráðstefnur. Þessi hugmynd kviknaði út frá því. Kosturinn við að gefa bókina út á ensku er sá að við erum að opna þetta fyrir öðrum en norrænum fræðimönnum. Á alþjóðavettvangi halda margir að Norðurlöndin séu mjög lík og hugsa jafnvel um þau sem eina heild.“

Björg segir margt binda Norðurlöndin saman en margt sé líka ólíkt. „Það hefur mikil áhrif að þrjú ríkjanna séu í ESB en tvö í EES. Svíþjóð og Finnland hafa breytt sínum stjórnarskrám mikið og þar hafa verið sett inn ákvæði um samspil þjóðþinganna við ESB. Þetta hafa Danir ekki gert en í dönsku stjórnarskránni er þó skýr framsalsheimild.“

Björg bendir á að Ísland skeri sig úr hvað varðar skort á heimildum til framsals valds.

„Ákvæði um þjóðréttarsamvinnu er í grunninn frá 1920 og gefur enga vísbendingu um að það megi framselja vald ríkisins. Hér hefur það aldrei verið viðurkennt að það sé verið að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×