Fótbolti

Fleiri FIFA stórlaxar sendir í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Angel Napout með Sepp Blatter.
Juan Angel Napout með Sepp Blatter. Vísir/Getty
Juan Angel Napout er nýjasti fjársvikamaðurinn innan Alþjóðafótboltasambandsins til að fá langan fangelsisdóm í Bandaríkjunum.

Paragvæinn er fyrrum forseti Knattspyrnusambands Suður-Ameríku og gengdi einnig stöðu varaformanns hjá FIFA.

Sterkur orðrómur var alltaf um peningaflæði í vasa FIFA stórlaxa á bak við tjöldin hjá FIFA en ekkert var gert í því. Alríkisröglreglan fór aftur á móti á fullum krafti í málið og þá fóru hlutirnia heldur betur að gerast.

Napout var dæmdur sekur í desember í fyrra af dómstól í Brooklyn í New York en nú hefur dómari ákveðið refsinguna. 





Juan Angel Napout fékk níu ára dóm og auk þess þarf hann að gefa eftir 3,37 milljónir dollara af „sviknu“ fé og borga ennfremur eina milljón dollara í sekt.

Napout er á leið í fangelsi fyrir samsæri um fjárkúgun og tvö önnur fjársvik.

Hinn sextugi Juan Angel Napout var fundinn sekur á sama tíma og Jose Maria Marin, fyrrum forseti brasilíska sambandsins. Marin er 86 ára og fékk fjögurra ára dóm en aðeins stærri sekt, 1,2 milljónir dollara.





Napout var handtekinn á Baur Au Lac hótelinu í Zurich í desember 2015 eða sjö mánuðum eftir að sjö forystukálfar FIFA voru handteknir á sama stað.  Eftir handtökuna í maí 2015 hófust allsherjar hreinsanir innan raða FIFA og Sepp Blatter sagði í kjölfarið af sér.

Napout var meðal annars mjög öflugur í því að stinga peningum undir borðið í kringum við gerð sjónvarpsamninga þar sem hann tók við mútum fyrir að selja ákveðnum fjölmiðlafyrirtækjum sjónvarpsréttinn á mótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×