Erlent

Ættingjar gagnrýna íhaldsmenn fyrir að nota morð ungrar konu í pólitískum tilgangi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mollie Tibbetts hafði verið saknað frá 18. júlí en lík hennar fannst í vikunni.
Mollie Tibbetts hafði verið saknað frá 18. júlí en lík hennar fannst í vikunni. Vísir/AP
Ættingjar Mollie Tibbetts haffa stigið fram og gagnrýnt hvernig íhaldsmenn í Bandaríkjunum hafa notað morð hennar í pólitískum tilgangi. Ólöglegur innflytjandi hefur verið ákærður fyrir morð hennar og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og aðrir Repúblikanar hafa haldið því fram að morð hennar sýni fram á nauðsyn þess að taka á innflytjendamálum Bandaríkjanna og jafnvel nauðsyn þessa að byggja vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Notar morðið á Tibbetts til að gagnrýna „vonlaus“ innflytjendalög



Frænka Tibbetts, Billie Jo Calderwood, skrifaði á Facebook á þriðjudaginn að fjölskyldan hefði fengið stuðning frá vinum af öllum þjóðernum og kynþáttum.

„Vinsamlegast munið að illska er í ÖLLUM litum,“ skrifaði Calderwood.

Önnur frænka hennar, Sam Lucas, fékk nóg þegar hún las tíst um Tibbetts. Þær voru fjarskyldar og Lucas segist ekki hafa ætlað sér að vera einhverskonar talskona fjölskyldunnar. Hins vegar finnist henni óþolandi að morð frænku sinnar sé notað í pólitískum tilgangi.

Það kom henni á óvart hve fljótt það gerðist.

„Ja hérna, ættingjar mínir misstu fjölskyldumeðlim og þetta eru fyrstu viðbrögðin,“ sagði Lucas við Washington Post.

Frá því hún birti tístið segist Lucas hafa orðið fyrir miklu áreiti. Þar á meðal hafi fólk óskað þess að hún hefði verið myrt en ekki Tibbetts.

Hún segist skilja að umræða um innflytjendur í Bandaríkjanna þurfi að eiga sér stað en tekur fyrir að sú umræða eigi að snúast um frænku sína.

„Fólk er að segja: „Ef við værum með betra landamæraeftirlit, væri frænka þín á lífi“. Það er mögulega satt en fullt af ungum konum eru myrtar af löglegum innflytjendum eða fólki sem fæddist hérna.“

Umræða Repúblikana virðist að mestu leyti byggja á þeirri hugmynd að innflytjendur fremja fjölmarga glæpi. Rannsóknir hafa þó sýnt fram á hið gagnstæða. Að innflytjendur í Bandaríkjunum fremji færri glæpi en þeir sem fæðast í Bandaríkjunum og að fleiri innflytjendur leiði ekki til fleiri glæpa. Buzzfeed hefur tekið nokkrar slíkar rannsóknir saman.



Óljóst er hvort að Cristhian Rivera, sem sakaður er um að hafa myrt Tibbetts, hafi verið í Bandaríkjunum ólöglega. Lögfræðingur hans hefur sagt að hann hafi verið með atvinnuleyfi en landamæraeftirlit Bandaríkjanna segir svo ekki vera.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×