Innlent

Landsréttur staðfestir kyrrsetningu á eignum Sigur Rósar

Birgir Olgeirsson skrifar
Hafa eignir meðlima Sigur Rósar sætt kyrrsetningu frá því í desember í fyrra.
Hafa eignir meðlima Sigur Rósar sætt kyrrsetningu frá því í desember í fyrra. Vísir/EPA
Landsréttur hefur staðfest úrskurð um kyrrsetningu á eignum meðlima hljómsveitarinnar Sigur Rósar vegna rannsóknar á meintum skattalagabrotum þeirra. 

Hafa eignir þeirra sætt kyrrsetningu frá því í desember í fyrra.

Í mars síðastliðnum greindi Fréttablaðið frá því að embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hefði kyrrsett eignir Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Holm og Orra Páls Dýrasonar að kröfu tollstjóra. Um var að ræða kyrrsetningu upp á tæpar 800 milljónir króna alls en hæsta krafar var á hendur söngvaranum Jóni Þóri upp á 638 milljónir króna.

Í máli Jóns Þórs átta fasteignir kyrrsettar, fjögur ökutæki, bankareikningur og hlutafé í þremur félögum.

Tvær fasteignir í eigu trommarans Orra Páls voru kyrrsettar en verðmæti þeirra nemur um 82 milljónum króna. Þá voru tvær fasteignir í eigu bassaleikarans Georgs Holm kyrrsettar en verðmæti þeirra nemur um 78,5 milljónum króna.

Meðlimir Sigur Rósar hafa lýst því yfir að ekki hafi verið ásetningur að baki þessu heldur handvömm endurskoðanda.

Landsréttur taldi fullnægt því skilyrði að hætta væri á að eignum yrði skotið undan eða þær glatast eða rýrnað. Þá taldi Landsréttur hvorki að verðmæti hinna kyrrsettu eigna hefðu verið umfram það sem þurfti til að tryggja kröfu tollstjóra né að slíkir annmarkar hefðu verið á undirbúningi eða framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar að valdið gæti því að hún yrði felld úr gildi.


Tengdar fréttir

Eignir meðlima Sigur Rósar áfram í frosti

Héraðsdómur staðfesti í síðustu viku kyrrsetningu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á eignum þriggja meðlima Sigur Rósar. Eignir upp í 800 milljóna króna kröfu frystar síðan í desember. Ætla að áfrýja til Landsréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×