Innlent

Laun nýs bæjarstjóra í Árborg lækkuð

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Bæjarráð Árborgar skrifaði undir ráðningarsamning við Gísla Halldór, nýjan bæjarstjóra á fundi sínum í gær. Á myndinni eru frá vinstri, Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Gísli Halldór Halldórsson, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarráðsmaður og Gunnar Egilsson, bæjarráðsmaður.
Bæjarráð Árborgar skrifaði undir ráðningarsamning við Gísla Halldór, nýjan bæjarstjóra á fundi sínum í gær. Á myndinni eru frá vinstri, Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Gísli Halldór Halldórsson, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarráðsmaður og Gunnar Egilsson, bæjarráðsmaður. Mynd/Sveitarfélagið Árborg
Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar hefur samþykkt ráðningarsamning við nýjan bæjarstjóra í sveitarfélaginu, Gísla Halldór Halldórsson. Það vekur athygli að launin lækka umtalsvert miðað við þau laun sem fyrrverandi bæjarstjóri hafði, Ásta Stefánsdóttir.

„Já, lækkunin nemur 130.000 krónum á mánuði eða um 1.560.000 krónur á ári, auk þess sem annað fyrirkomulag verður á akstursgreiðslum sem ég tel að kosti sveitarfélagið minna en fyrra fyrirkomulag, en það verður að koma í ljós á næstu mánuðum. Ástæðan fyrir þessari lækkun er sú að við teljum  að laun bæjarstjóra almennt séu orðin óþarflega mikil, þó er nauðsynlegt að leitast við að vera samkeppnishæf,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, formaður bæjarráðs.

1,5 milljón á mánuði

Föst heildarlaun Gísla á mánuði verða 1.500.000 krónur. Ekki er greidd sérstök yfirvinna ef bæjarstjórinn þarf að vinna utan venjubundins vinnutíma eða helgidaga vegna ferðalaga eða sérstakra verkefna. Akstur er greiddur samkvæmt akstursdagbók í hverjum mánuði. Sveitarfélagið útvegar Gísla farsíma vegna starfa sinna og greiðir mánaðarlega samkvæmt reikningi fyrir GSM símareikning og heimasíma.

Þá greiðir sveitarfélagið fyrir háhraða internettengingu (ADSL) heim til bæjarstjórans og kemur upp VPN tengingu. Árborg útvegar Gísla líka fartölvu til afnota vegna starfa sinna. Ráðningarsamningurinn gildir til loka yfirstandandi kjörtímabils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×