Erlent

Hyggjast leggja fram framsalsbeiðni vegna taugaeitursárásarinnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum ríkjanna tveggja  vegna taugaeitursárásarinnar og talið er að útspil bresku ríkisstjórnarinnar verði eins og að hella olíu á eld ófriðarbálsins.
Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum ríkjanna tveggja vegna taugaeitursárásarinnar og talið er að útspil bresku ríkisstjórnarinnar verði eins og að hella olíu á eld ófriðarbálsins. Vísir/Ap
Breska ríkisstjórnin hyggst leggja fram beiðni um framsal á tveimur Rússum sem grunaðir eru um að hafa staðið að taugaeitursárásunum í Bretlandi. Dawn Sturgess, bresk kona á fimmtugsaldri, lést eftir að hafa komist í snertingu við taugaeitrið Novichok í lok júnímánaðar og þá hafa þrír aðrir veikst alvarlega eftir að hafa komist í tæri við eitrið. Að því er heimildarmenn The Guardian greina frá hefur saksóknari lokið við gerð framsalsbeiðninnar.

Framsalsbeiðnin verður lögð fram í kjölfarið á umfangsmikilli lögreglurannsókn sem hefur staðið yfir í fleiri mánuði. Hundruð lögreglumanna auk starfsmanna leyniþjónustunnar hafa unnið hörðum höndum að því að reyna að leysa málið.

Lögregluliðinu varð talsvert ágengt í rannsókn sinni þegar Charlie Rowley og Dawn Sturgess urðu fyrir taugaeitrinu í sumar því þá gat lögreglan kortlagt ferðir tveggja manna, sem grunaðir eru um verknaðinn, með hjálp eftirlitsmyndavéla. Rannsóknarlögreglan hefur einnig geta stuðst við upplýsingar um ferðir þeirra til og frá Bretlandseyjum.

Rússnesk yfirvöld hafa staðfastlega neitað allri sök og segja Rússa ekki hafa átt neina aðkomu að málinu. Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum ríkjanna vegna taugaeitursárásarinnar og talið er að útspil bresku ríkisstjórnarinnar verði eins og að hella olíu á eld ófriðarbálsins.


Tengdar fréttir

Telja sig vita hver eitraði fyrir Skripal

Talið er að lögreglan á Bretlandi hafi borið kennsl á þá sem bera ábyrgð á taugaeitursárás á rússneska fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal.

Pútín telur eitrunarásakanir tilhæfulausar

Vladimír Pútín þvertekur fyrir það að yfirvöld í Rússlandi standi á bakvið árásir á fjóra einstaklinga með taugaeitrinu Novichok í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×