Innlent

„Ég borða mikinn sykur og drekk mikið kaffi“

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þrjár hundrað ára konur gefa upp mismunandi ástæður fyrir háum aldri ein þakkar það hversu heiðarleg hún hefur verið, önnur hvað hún hefur verið dugleg að synda og sú þriðja þakkar mikilli kaffidrykkju með molasykri.

Nýlega var öllum Íslendingum hundrað ára og eldri boðið í hátíðarkaffi með forsetahjónunum á Hrafnistu í Reykjavík í tilefni af hundrað ára fullveldi Íslands.

Margir létu sjá sig og meðal annars elsti Íslendingurinn Jensína Jóna Kristín Guðmundsdóttir sem verður 109 ára í haust og þá mætti Dóra Ólafsdóttir galvösk til hátíðarinnar en hún er 106 ára.

Hvaða ástæða gefur fólkið fyrir þessum háa aldri sínum?

„Ég ákvað það þegar ég var krakki eða unglingur að ég skyldi vera heiðarleg allt lífið og ég hef reynt að standa við það,“ segir Guðrún S. Kristjánsdóttir sem er 100 ára. Hún segir það margborga sig að vera heiðarleg.

„Ég hef það fyrir sið, skal ég segja þér, nú orðið að synda í hálftíma án þess að stoppa. Þetta er fimmtíu metra laug hjá okkur hérna í Kópavoginum,“ segir Auður Helga Jónsdóttir sem er hundrað ára.

„Ég borða mikinn sykur og drekk mikið kaffi,“ segir Guðrún Kristín Ingimundardóttir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.