Lífið

Indriða-upplestur setti Twitter á hliðina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
„Hver á að borga þessar rendur?“
„Hver á að borga þessar rendur?“ Skjáskot
Jón Gnarr dustaði rykið af kvartaranum sívinsæla Indriða í netheimum í gærkvöld. Tilefnið var áskorun Viðreisnarforkólfsins Geirs Finnssonar sem skoraði á borgarstjórann fyrrverandi að lesa upp skrautlega athugasemd sem birtist í athugasemdakerfi netmiðlanna á dögunum.

Þar gagnrýndi guðfræðingurinn Jón Valur Jensson, fyrrverandi frambjóðandi Íslensku þjóðfylkingarinnar, málun Skólavörðustígs sem er nú prýddur regnbogalitunum í tilefni Hinsegin daga. Jón Valur spyr sig hvað búi að baki máluninni, hvað hún kosti og hvort hún komi „yfirhöfuð að gagni“ eins og hann orðar það.

Hástafirnir og uppsetning athugasemdarinnar minnir óneitanlega á áherslur og orðfæri Indriða, sem Jón Gnarr gerði ódauðlegan í sjónvarpsþáttunum Fóstbræðrum í upphafi aldarinnar. Fyrrnefndur Geir sá sér því gott til glóðarinnar og skoraði á Jón að flytja færslu nafna hans „sem Indriði.“

Jón Gnarr varð við áskoruninni og má flutning hans heyra hér að neðan. Færsla Jóns hefur vakið glimmrandi lukku og er um að ræða eitt allra vinsælasta tíst Íslendings, en rúmlega 2000 manns hafa „lækað“ tístið.

Rétt er að taka fram að þvert á það sem Jón Valur heldur fram í athugasemdinni er hinsegin fræðsla í námskrá, eins og borgarfulltrúinn fyrrverandi Halldór Auðar Svansson bendir á.

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.