Fótbolti

Neymar um gagnrýnina: „Stundum ýki ég inni á vellinum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Neymar liggur á vellinum í Rússlandi
Neymar liggur á vellinum í Rússlandi Vísir/Getty
Brasilíska stórstjarnan Neymar olli nokkrum vonbrigðum á HM í Rússlandi og var harðlega gagnrýndur fyrir leikaraskap. Hann notaði sjónvarpsauglýsingu styrktaraðila til þess að tjá sig opinberlega um málið.

Neymar skoraði tvö mörk á HM í Rússlandi þar sem Brasilía datt úr leik í 8-liða úrslitunum gegn Belgíu. Neymar hafði ekki spilað fótboltaleik í nærri hálft ár fyrir mótið þar sem hann fótbrotnaði í febrúar.

„Ykkur finnst ég ýkja og stundum geri ég það. En sannleikurinn er að ég þjáist inni á vellinum,“ sagði Neymar í sjónvarpsauglýsingu Gillette.

„Þið haldið kannski að ég detti of mikið, en sannleikurinn er að ég datt ekki, ég brotnaði niður. Það er mun verra en þegar stigið er á veikan ökkla.“



Neymar hefur ekkert talað við fjölmiðla eftir tapið í 8-liða úrslitunum og aðeins tjáð sig einu sinni með mynd á Instagram. Hann reyndi að útskýra sitt sjónarmið í auglýsingunni en útskýringar hans fóru ekkert sérstaklega vel í stuðningsmenn heima fyrir.

„Þegar ég fer án þess að tala við fjölmiðla er það ekki af því að ég vil bara sviðsljósið eftir sigra. Það er vegna þess að ég kann ekki enn að valda ykkur vonbrigðum,“ sagði Neymar.

„Þegar ég lít út fyrir að vera ókurteis er það ekki af því að ég er ofdekraður krakki, það er vegna þess að ég kann ekki að vera pirraður.“

„Það tók mig langan tíma að sætta mig við gagnrýni ykkar. Ég leit lengi í spegilinn og varð að nýjum manni. Ég féll, en þú getur ekki risið upp aftur nema hafa dottið fyrst.“

„Þið getið haldið áfram að kasta steinum, eða sett þá niður og hjálpað mér á fætur. Þegar ég stend uppréttur þá stendur Brasilía með mér,“ sagði Neymar.


Tengdar fréttir

Neymar: Tek bröndurunum ekki illa

Neymar svarar þeirri gagnrýni sem hann fékk fyrir að liggja mikið í grasinu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×