Innlent

Búist við svipað mörgum í vínbúðirnar fyrir verslunarmannahelgi og í fyrra

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikið selst af áfengi vikuna fyrir verslunarmannahelgi ár hvert. Myndin er úr safni.
Mikið selst af áfengi vikuna fyrir verslunarmannahelgi ár hvert. Myndin er úr safni. Vísir/GVA
Áfengis-og tóbaksverslun ríkisins telur flest benda til þess að fjöldi viðskiptavina fyrir verslunarmannahelgina í ár verði svipaður og í fyrra. Vikan fyrir verslunarmannahelgi er jafnan ein sú annamesta í vínbúðunum.

Fjallað er um áfengissölu fyrir verslunarmannahelgar í frétt á vef ÁTVR sem birtist í dag. Þar kemur fram að vikan fyrir verslunarmannahelgi sé jafnan ein sú annamesta í Vínbúðunum á hverju ári. Um 110.000 viðskiptavinir versla í búðunum í hverri viku í júlí að jafnaði. Til samanburðar komu um 137.000 viðskiptavinir í vínbúðirnar og um 767 þúsund lítrar af áfengi seldust vikuna fyrir verslunarmannahelgi í fyrra.

Flestir koma í búðirnar á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi en hann er að jafnaði einn annasamasti dagur ársins. Í fyrra versluðu 38 þúsund manns í vínbúðunum á föstudeginum og 230 þúsund lítrar af áfengi seldust.

Mesta annríkið er á milli klukkan fjögur og sex síðdegis en þá koma allt að 6.400 viðskiptavinir í búðirnar á klukkustund. Þar sem mest er að gera hefur verið gripið til þess að hleypa viðskiptavinum inn í hollum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×