Innlent

Þvinguð á fund, félagslega einangruð og vansæl í grunnskóla

Þórdís Valsdóttir skrifar
Áslaug Ýr er nemandi í Háskóla Íslands.
Áslaug Ýr er nemandi í Háskóla Íslands. Vísir/Anton Brink
Áslaug Ýr Hjartardóttir, daufblind kona sem greindist með stökkbreytt gen á yngri árum og er með arfgengan taugahrörnunarsjúkdóm, skrifaði blogg um reynslu sína af grunnskólaárunum og vandar skólanum sem hún gekk í ekki kveðjurnar. Hún segir að hún hafi verið félagslega einangruð, neitað um túlkaþjónustu og bókstaflega þvinguð á fund með deildarstjóra í skólanum.

Áslaug rekur sögu grunnskólaára sinna og hennar erfiðu reynslu af því að vera utanvelta vegna fötlunar sinnar. Hún segir að hún líti á sjálfa sig sem aktivista og að MeToo byltingin hafi látið hana hugsa að fyrst svona margar konur geti sagt frá kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreiti, þá hljóti hún að mega segja frá sinni reynslu.

„Ég er orðin þreytt á að þegja, og hef enga löngun til að missa alveg geðheilsuna. Þess vegna ætla ég að rífa í gömul sár, ég ætla að greina frá því sem leynist í þoku fortíðarinnar. Þið megið svo „drusluskamma“ mig eins og ykkur sýnist, mér er alveg sama,“ segir Áslaug í blogginu.

Áslaug fer kerfisbundið yfir sögu sína og byrjar á fyrri árum grunnskólagöngu sinnar. Þar segir hún frá því að hún hafi verið í tvítyngdum skóla á Akureyri, en almennur grunnskóli og skóli fyrir heyrnalaus börn voru sameinaðir. Henni gekk vel í skólanum til að byrja með en vegna taugahrörnunarsjúkdóms hennar þurfti hún á æ meiri hjálp að halda og vinunum fækkaði.

„Ég  var enn í almennum bekk, en besti vinur minn var allt í einu hættur að tala við mig. Ég var oft ein í frímínútum og þurfti að treysta á aðstoð kennara og starfsfólks skólans.  Ég var ekki með eigin aðstoðarmann, og það hafði þau áhrif að ég gat ekki bara hagað mér eins og mér sýndist, skrópað í tímum eða þannig. Og ég horfði upp á systur mína verða fyrir enn meiri mismunun,“ segir Áslaug og bætir við að hún hafi haldið að hún myndi „sleppa“ miðað við systur sína Snædísi og að skólinn myndi læra af reynslu hennar. Snædís Rán systir hennar er með sama sjúkdóm og Áslaug.

Félagsleg einangrun á unglingsárum

Áslaug segir að skólinn hafi ekki verið eins tvítyngdur og sumir vonuðu. „Það voru í raun örfáir krakkar sem gátu talað táknmál og þá bara mjög einfalt mál,“ segir Áslaug. Hún upplifði mikla félagslega einangrun og segir frá því að þrátt fyrir að hafa þekkt alla í árgangi sínum hafi hún ekki átt neina nána vini.

Hún hitti sálfræðing þegar hún var í níunda bekk, en henni leið illa og átti erfitt með að tjá sig um sína vanlíðan. Hún þurfti að hafa með sér túlk til sálfræðingsins og segir að það hafi truflað hana að geta ekki talað beint við sálfræðinginn, enda hafi hún verið mjög viðkvæm á þessum tíma. „Sáli komst að þeirri niðurstöðu að ég væri í góðu lagi, en bara frekar einmana.“

Stuttu síðar var brugðið á það ráð að fá samnemendur hennar til að skiptast á að vera með henni í frímínútum. „Mér fannst þetta fín hugmynd, en um leið fannst mér óþægilegt að það þurfti að tala sérstaklega við krakkana til að ég fengi að sitja hjá þeim. En þetta plan virkaði ágætlega, og drógu nokkrar bekkjarsystur mínar mig til dæmis einn daginn með sér í bakaríið,“ segir Áslaug en að hennar sögn var þetta ein af fáum góðum minningum frá þessum tíma.

Áslaug segir að hún hafi verið utanveltu, liðið illa og að mikill skortur hafi verið á túlkaþjónustu. Þegar hún var að vinna í hóp með öðrum nemendum eitt sinn hafi hún ekki fengið túlk og reiddist yfir ástandi sínu og skrifaði skólastjóra skólans tölvupóst vegna þessa. „Ég sagði henni frá því sem hafði gerst og brýndi fyrir henni hve mikilvægt það væri að ég hefði túlk í tímum, það væru víst bara mannréttindi. Ég upplifði mig nefnilega ekki sem jafningja meðal annarra nemenda og þetta var ekki eina skiptið sem ég skrifaði skólastjóranum eða öðru starfsfólki póst og benti á það.“

Áslaug segir að þrátt fyrir að skólastjórinn hafi virst skilja stöðu hennar hafi lítið breyst.

 

Áslaug hefur barist lengi fyrir mannréttindum sínum og fjallað hefur verið um hana í fjölmiðlum vegna þessa. Á síðasta ári tapaði hún máli gegn íslenska ríkinu vegna túlkaþjónustu.Vísir/Anton brink

Neitað um túlk í söngleik

Áslaug fékk hlutverk í söngleik skólans og hana hlakkaði mikið til að taka þátt í honum. Hún átti þó erfitt með að fylgjast með sökum fötlunar sinnar og bað leikstjóra söngleiksins um túlk, en var neitað. „Leikstjórinn svaraði mér hins vegar blákalt: „Nei, túlkurinn á ekki að vera hluti af sýningunni““, segir Áslaug og bætir við að þetta svar hafi sýnt henni hversu lítil virðing væri borin fyrir túlkum og íslensku táknmáli í skólanum.

Áslaug brást illa við svari skólastjórans og fór að gráta. Leikstjórinn brást við gráti hennar með undarlegum hætti. „Ég hélt fyrst að enginn myndi taka eftir tárunum í myrkrinu, en svo segir leikstjórinn allt í einu við mig: „Áslaug, hættu að gráta!““.

„Hvaða rugl var þetta annars, að neita fötluðum nemanda smávægis aðstoð í grunnskólaleikriti? Og segja mér svo að hætta að væla? Þetta átti jú að vera skemmtilegur viðburður,“ segir Áslaug.

Málinu var þó hvergi nærri lokið því þegar nálgaðist frumsýningardag hafi hún frétt af því að systir hennar fengi ekki snertimálstúlk á sýninguna og þar af leiðandi gat hún ekki verið viðstödd. Áslaug var reið yfir þessum fregnum og mótmælti.



Þvinguð á fund deildarstjórans

Áslaug neitaði að mæta í tíma og segir að hún hafi ákveðið að láta ekki eins og „góði” nemandinn á meðan ekkert væri aðhafst í máli systur hennar í tengslum við söngleikinn. Hún var þá kölluð á fund deildarstjóra í skólanum.

„Jafnvel þó að ég hefði neitað að fara á fundinn var ég þvinguð þangað inn. Mér var rúllað inn á skrifstofuna og það eina sem ég gat gert var að neita að hlusta (sem er mjög auðvelt að gera þegar þú ert daufblind, ég bara lokaði augunum og slökkti á heyrnartækinu, hendur fyrir aftan bak og allt), sagði ítrekað að ég væri ekki tilbúin í samtal,” segir Áslaug en að hennar sögn brást deildarstjórinn illa við og sagði hana dónalega. Áslaug segist ekki hafa ráðið við reiði sína og hélt því reiðilestur yfir deildarstjóranum um réttindi fatlaðs fólks.

Áslaug segir að lokum frá niðurlægjandi reynslu sinni þegar hún flutti lokaverkefni sitt í skólanum. Hún var með glærukynningu um ferð sína á Eurovision keppnina í Azerbaijan og ætlaði að spila azerbaíska Eurovision-lagið á meðan myndirnar voru sýndar. „Þegar sýningin fór af stað runnu glærurnar yfir skjáinn og í bakgrunninum heyrðust bara skruðningar. Hvorki ég né kennarinn áttuðum okkur á því, enda báðar heyrnarlausar. Það vissu allir að við heyrðum ekki en engum datt í hug að láta okkur vita, ekki einu sinni hitt starfsfólk skólans sem var á staðnum,“ segir Áslaug en kennarinn sem aðstoðaði hana við glærusýninguna var einnig heyrnarlaus.

„Ég hef ekki stigið fæti, eða réttara sagt rúllað öðru framhjólinu, inn á skólalóðina síðan ég útskrifaðist, en heyri samt enn sögur sem berast þaðan. Tvítyngið er enn bara orðið tómt, sama starfsfólkið að störfum og eitt og annað að gerast sem mér líst ekki á. Nú er ég komin í háskólann og er þessa stundina eini heyrnarlausi nemandinn í námi í Háskóla Íslands, af þeim rúmlega 200 heyrnarlausum einstaklingum sem búa á Íslandi. Og ég er ekki bara heyrnarlaus, heldur líka blind og hreyfihömluð. Hvað segir þetta okkur um íslenska menntakerfið eða íslenskt samfélag?“ segir Áslaug Ýr að lokum.

Frásögn Áslaugar í heild sinni má lesa hér: Grunnskólaárin sem í móðu #GameOver


Tengdar fréttir

Mannréttindalögfræðingur gagnrýnir dóm í máli Áslaugar harðlega

Áslaug Ýr Hjartardóttir tapaði máli sínu í Hæstarétti í vikunni þar sem hún sóttist eftir því að fá túlkaþjónustu í sumarbúðum fyrir daufblinda greidda af íslenska ríkinu. Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður segir dóminn skelfilegan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×