Innlent

Halda fullveldishátíð í Dölum og heiðra Sturlu Þórðarson

Kristján Már Unnarsson skrifar
Staðarhóll í Saurbæ í Dölum er nú eyðijörð. Þar er fyrirhugað að gera Sturlureit.
Staðarhóll í Saurbæ í Dölum er nú eyðijörð. Þar er fyrirhugað að gera Sturlureit. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Dalamenn hafa boðað til eigin fullveldishátíðar í Saurbæ um næstu helgi sem jafnframt verður Sturluhátíð. Þar verður í senn fagnað hundrað ára afmæli fullveldisins og 804 ára afmæli Sturlu Þórðarsonar sagnaritara, skálds og lögmanns, sem fæddist þann 29. júlí árið 1214. Hátíðin er öllum opin.

Dalabyggð og Sturlunefnd efna til samkomunnar, sem hefst í félagsheimilinu Tjarnarlundi klukkan 14 á sunnudag, á afmælisdegi Sturlu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ávarp en formaður Sturlunefndar, Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi forseti Alþingis, setur hátíðina. Tónlist flytja þau Hanna Dóra Sturludóttir og Snorri Sigfús Birgisson.

Svavar Gestsson sýnir gestum Staðarhól í Saurbæ þar sem sagnaritarinn Sturla Þórðarson bjó.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Þá fjallar Ari Edwald, forstjóri MS, um söguskilti í Dölum, Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, greinir frá nýrri útgáfu Fornritafélagsins á Sturlungu, og Guðrún Alda Gísladóttir fornleifafræðingur segir frá fornminjaskráningu á Staðarhóli. 

Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra og ritari Sturlunefndar, fer með gesti að Staðarhóli að lokinni dagskrá og segir frá minningarreit um Sturlu, sem þar er á döfinni.

Frétt sem Stöð 2 sýndi um Sturlureit í nóvember í fyrra má sjá hér:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×