Fótbolti

Barca borgaði fimm milljarða fyrir Brassann Arthur en hver er þetta?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arthur er nýjasti leikmaður Barcelona.
Arthur er nýjasti leikmaður Barcelona. vísir/getty
Spánarmeistarar Barcelona eru búnir að finna arftaka Paulinho á miðjunni eftir að Brasilíumaðurinn fór aftur til Guangzhou Evergrande í Kína á láni en hann var aðeins eitt tímabil á mála hjá Katalóníurisanum.

Paulinho spilaði stórvel með Barcelona er liðið rúllaði yfir spænsku 1. deildina á síðsutu leiktíð. Hann er nú farinn aftur til liðsins sem hann spilaði 63 leiki fyrir á tveimur árum.

Stuðningsmenn Börsunga þurfa þó ekkert að óttast því þeir eru búnir að finna arftaka Paulinho. Hann heitir Athur og er einnig Brasilíumaður. Arthur er 21 árs og kemur frá Gremio.

Barcelona borgaði 40 milljónir evra eða fimm milljarða íslenskra króna fyrir þennan efnilega miðjumann sem hefur slegið í gegn í heimalandinu undanfarin ár. En, hver er maðurinn sem verður nú væntanlega byrjunarliðsmaður í einu besta liði heims?

Arthur fór meiddur af velli í úrslitum Copa Libertadores en Gremio vann samt.vísir/getty

Missti af úrslitaleiknum

Arthur er fæddur í Gioania inn í miðju landi í Brasilíu þar sem að hann hóf ferilinn áður en hann fór til Gremio í Porto Alegre árið 2010. Hann varð strax stjarna í unglingaliðum Gremio og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2015.

Luis Felipe Scolari, fyrrverandi þjálfari heimsmeistara Brasilíu og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, kom auga á strákinn í röðum yngri flokka Gremio og gaf honum sitt fyrsta tækifæri með stóru strákunum.

Arthur hjálpaði Gremio að vinna brasilíska bikarinn árið 2016 en hann varð ekki fastamaður í byrjunarliðinu fyrr en á þessu ári. Hann tók sitt fyrsta tímabil með trukki og dýfu og var kjörinn besti nýliðinn í brasilísku deildinni.

Hann var meira að segja enn betri í suðuramerísku Meistaradeildinni en varð fyrir því að meiðast í seinni leik úrslitarimmunnar sem varð til þess að hann gat ekki verið með á HM félagsliða þar sem að Gremio tapaði, 1-0, fyrir Real Madrid í úrslitaleiknum.

Boltinn og Arthur eru miklir vinir.vísir/getty

Sendingarsnillingur

Arthur er afturliggjandi miðjumaður sem er hvað helst þekktur fyrir að vera tekknískur og frábær sendingamaður. Hann kláraði 93,1 prósent sendinga sinna í brasilísku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð sem var besta hlutfall allra í deildinni.

Hann kláraði fleiri sendingar en nokkur annar á 90 mínútum (82,2) að meðaltali í leik á síðustu leiktíð en var svo enn betri í fyrstu sjö leikjum brasilísku deildarinnar áður en hann var keyptur til Barcelona.

Í sjö leikjum fyrir Gremio var hann að ná 92,2 sendingum að meðaltali á 90 mínútum og klára 94,9 prósent þeirra. Fjórir aðrir leikmenn í brasilísku úrvalsdeildinni ná reyndar yfir 90 prósent sendingahlutfalli þannig spurning er hvernig Arthur spjarar sig í sterkari deild.

Talið er nokkuð víst að það styttist í landsliðssæti hjá Athuri en hann hefur ekki verið í hóp hjá Tite í aðdraganda HM 2018. Væntanlega fær hann tækifæri í fyrstu vináttuleikjum eftir heimsmeistaramótið, sérstaklega þegar að hann er orðinn leikmaður Barcelona.

Honum hefur verið líkt við Iniesta sem kvaddi Barca í sumar.vísir/getty

Barca ætti að henta honum

Arthur Henrique Ramos de Oliveira Melo, eins og hann er skírður, er ekki stór. Hann er aðeins 173 cm og hefur því verið líkt við smávaxna snillinga á borð við Thiago Alcantara og Andrés Iniesta. Sá síðarnefndi var einmitt að kveðja Barcelona í sumar.

Hann skorar ekki mikið og gefur ekki mikið af stoðsendingum en hann er frábær með boltann og kemur sóknum af stað. Hann ætti að smellpassa inn í leikstíl Barcelona en það er lið sem vill vera með boltann. Það hentar Athuri vel en Gremio var 57 prósent með boltann að meðaltali í leikjum sínum. Aðeins Atletico Paranense er meira með boltann í brasilísku úrvalsdeildinni.

Þar sem Paulinho er farinn og talað er um að Andre Gomes gæti verið á útleið fær Arthur ekki mikinn tíma til að aðlagast. Hann gæti orðið byrjunarliðsmaður við hlið Ivan Rakitic og Sergio Bustqets frá fyrsta leik.

Það sem hann gæti gert fyrir Rakitic er að gefa Króatanum meira frjálsræði til að sækja sem er ekki amaleg tilhugsun fyrir stuðningsmenn Barcelona.

Greinin er að stærstu leyti unnin upp úr úttekt Sky Sports.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×