Innlent

Mótorhjólamenn hjóla hringinn fyrir Pieta samtökin

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mótorhjólamennirnir munu stoppa á nokkrum stöðum á landinu og selja merki til styrkar Pieta samtökunum. Hér eru verið að fara yfir Ölfusárbrú á Selfossi
Mótorhjólamennirnir munu stoppa á nokkrum stöðum á landinu og selja merki til styrkar Pieta samtökunum. Hér eru verið að fara yfir Ölfusárbrú á Selfossi Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Níu mótorhjólamenn ætla að nota helgina til að hjóla hringinn í kringum landið með viðkomu á nokkrum stöðum í þeim tilgangi að kynna Pieta samtökin sem berjast gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.

Félagarnir í Toy Run góðgerðasamtökunum stoppuðu á Selfossi á leið sinni í kringum landið á mótorfákunum sínum. Í ferðinni ætla þeir að koma við á nokkrum stöðum og selja merki sem þeir hönnuðu til styrktar Pieta samtökunum.

„Við ætlum að fara á Eistnaflug, hjóladaga og landsmót og reyna að selja sem mest. Þetta er þriðja árið sem við forum hringinn í þessum tilgangi. Okkur datt í hug á sínum tíma að fara að hjóla með tilgangi og láta gott af okkur leiða. Þetta varð til með gáfulegum umræðum”, segir Gylfi Hauksson, forsvarsmaður Toy Run góðgerðarsamtakanna.

En hvernig er mótorhjólahópurinn samsettur?

„Þetta eru bara blandaður hópur af vinum sem hafa gaman af því að hjóla saman og ferðast um landið. Plúsinn er sá að geta látið gott af sér leiða að gera það sem okkur þykir skemmtilegt”, bætir Gylfi við.

Hringferðinni lýkur á sunnudagskvöld en verkefnið fyrir Pieta samtökin verður þó áfram í gangi í allt sumar.

Gylfi Hauksson úr Grindavík tekur þátt í hringferðinni til styrktar Piata samtökunum á Íslandi.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×