Innlent

Vigdís boðar langan fund og segir borgarstjóra flúinn í sumarfrí

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vigdís Hauksdóttir er nýkomin úr stuttu sumarfríi. Henni gremst að borgarstjóri sé farinn í sumarfrí fyrir fund borgarráðs í dag.
Vigdís Hauksdóttir er nýkomin úr stuttu sumarfríi. Henni gremst að borgarstjóri sé farinn í sumarfrí fyrir fund borgarráðs í dag. Vísir/Vilhelm
Dagur B. Eggertsson verður ekki til svara á fundi borgarráðs í dag þar sem hann mun vera farinn í sumarfrí. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins sem situr í borgarráði, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Hún segir borgarstjóra annaðhvort kjarklausan eða slá málum á frest.

Vigdís, sem sjálf er nýkomin úr sumarfríi sem var „stutt, snarpt og skemmtilegt“ að hennar sögn, boðaði á þriðjudaginn til þess að fjallað yrði um þrjú grafalvarleg mál á fundi borgarráðs í dag að ósk stjórnarandstöðunnar. Ætlaði hún að krefja borgarstjóra svara vegna nýlega álits umboðsmanns Alþingis varðandi heimilislausa, nýfallinn dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og úrskurði kærunefndar jafnréttismála.

Öll þrjú málin hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarnar vikur.

Gengið var framhjá Ástráði Haraldsson við ráðningu borgarlögmanns að mati kærunefndar jafnréttismála.vísir/anton brink

Málin umdeildu

Í áliti umboðsmanns kom fram að almennur og viðvarandi vandi væri til staðar hjá Reykjavíkurborg í tengslum við húsnæðismál utangarðsfólks. Hið sama ætti við um hóp einstaklinga með fjölþættan vanda að því er fram kom í niðurstöðu frumkvæðisathugunar umboðsmanns. Fjölgað hefur í hópi utangarðsfólks í höfuðborginni um 95 prósent frá árinu 2012.

Í nýföllnum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var felld úr gildi áminning fjármálastjóra Ráðhúss Reykjavíkur. Var dómurinn harðorður í garð Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, og hún sögð sýna undirmanni sínum óvirðingu ef ekki lítilsvirðingu. Þá var minnt á að undirmenn væru ekki dýr í hringleikahúsi. Fréttastofa hefur leitað viðbragða hjá borginni vegna málsins en fengið þau svör að borgin tjái sig ekki um mál einstakra starfsmanna.

Þá kvað kærunefnd jafnréttismála upp þann úrskurð á dögunum að Reykjavíkurborg hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og rétt karla og kvenna við ráðningu borgarlögmanns í ágúst í fyrra. Ebba Schram var valin fram yfir Ástráð Haraldsson en bæði eru hæstaréttarlögmenn. Reykjavíkurborg taldi Ebbu hæfari en kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af því sem óskað var eftir af umsækjendum að Ástráður væri hæfari til starfans.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Boðar langan fund

Vigdísi segir málin þrjú mjög umdeild og þau séu „algjör áfellisdómur“ yfir störfum meirihlutans á síðasta kjörtímabili.

„Annað hvort er borgarstjóri kjarklaus maður að vilja ekki svara fyrir þessi mál á fundinum eða þá hitt að slá á málunum á frest því æðstu embættismenn borgarinnar,“ segir Vigdís. Staðgengill borgarstjóra sé vanhæfur í seinni tveimur málununum.

„Það er ljóst að nýkjörinn formaður borgarráðs fær storminn í fangið á sínum fyrstu vikum í starfi - svo virðist vera að hún sitji uppi með að þurfa að svara fyrir ótrúlega valdbeitingu gamla meirihlutans sem hefur verið dæmdur af vekum sínum hjá hvorki meira né minna en þremur aðilum sem tekið hefur verið mikið mark á í samfélaginu hingað til,“ segir Vigdís.

„Þetta verður langur fundur - svo mikið er víst !!!“

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson við vinnslu fréttarinnar.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×