Innlent

Sveitarfélög tryggi heimilislausu fólki ekki fullnægjandi aðstoð

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún Baldursdóttir Skjáskot úr frétt

Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að sveitarfélög tryggi heimilislausu fólki ekki fullnægjandi aðstoð við lausn á bráðum húsnæðisvanda í samræmi við lög, stjórnarskrá og fjölþjóðlegra mannréttindareglna.

Umboðsmanni hafa borist fjölmargar kvartanir vegna þess hvernig sveitarfélög rækja það verkefni að veita heimilislausum einstaklingum úrlausn í húsnæðismálum, en samkvæmt lögum ber þeim skylda til að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum.

Þá er sjónum sérstaklega beint að því hvernig Reykjavíkurborg hefur staðið að þessum málum, en umboðsmaður segir biðtíma eftir félagslegu húsnæði of langan og framboð húsnæðisúrræða ófullnægjandi. Fram kemur að utangarðsfólki hafi fjölgað um 95% frá árinu 2012

Í álitinu er einni kvörtun sérstaklega gerð skil. En maður hafði kvartað til umboðsmanns vegna málsmeðferðar. Hann fékk þær upplýsingar að umsókn hans um félagslegt húsnæði væri staðfest og var hann því á biðlista. Hins vegar kom það fimm árum seinna í ljós að hann  kæmi ekki til greina við úthlutun þar sem hann væri í virkri neyslu áfengis. Allan biðtímann hafi hann ýmist dvalið á götunni eða í gistiskýlum borgarinnar haldandi að fljótlega yrði honum útvegað húsnæði.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins segir þetta ekki einsdæmi.

„Ég vil að þessi biðlisti verði greindur. Ég vil vita nákvæmlega hverjir eru á þessum biðlista, hvað þeir eru búnir að bíða lengi. Hverjir hafa fengið svör og hvaða svör. Þarna eru yfir þúsund fjölskyldur skilst mér og listinn hefur lengst síðustu ár. Ég sé þetta sem neyðarástand og ég kalla eftir neyðaraðgerðum og það strax,“ segir Kolbrún Baldursdóttir.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.