Innlent

Banaslys í Lækjargötu um helgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bandaríkjamaðurinn var á 26. aldursári.
Bandaríkjamaðurinn var á 26. aldursári. Vísir
Bandarískur ferðamaður á þrítugsaldri fannst látinn á gangstétt við Lækjargötu 6a aðfaranótt laugardags. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur málið til rannsóknar en talið er maðurinn hafi fallið af þaki hússins. Málið er rannsakað sem slys en það var tilkynnt til lögreglu rétt fyrir klukkan tvö um nóttina. DV greindi fyrst frá.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að vegfarendur í miðborginni hafi heyrt dynkinn þegar maðurinn féll til jarðar. Var hann færður á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn. Ekki liggur fyrir hvað hann var að gera uppi á þaki hússins en hann hafði engin tengsl við húsnæðið. 

Bandaríkjamaðurinn var fæddur árið 1992 og einn í heimsókn sinni á Íslandi eftir því sem næst verður komist að sögn Jóhanns Karls. Fjölskyldu hans hefur verið tilkynnt um andlátið.

Lík mannsins verður krufið eftir tvær vikur þegar þýskur réttarmeinafræðingur, sem starfar tvær viku hér á landi og tvær vikur í Þýskalandi, kemur til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×