Fótbolti

Hannes á leið til meistaranna í Aserbaídsjan

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes er á leið til Aserbaídsjan ef allt gengur eftir.
Hannes er á leið til Aserbaídsjan ef allt gengur eftir.
Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, er á leiðinni til Qarabag í Aserbaídsjan en Fótbolti.net greinir frá þessu í dag.

Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur, greindi fyrst frá þessu á Twitter-síðu sinni en þetta kom einnig fram í hlaðvarpsþætti Hjörvars.

Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Hannesar, sagði svo í samtali við Fótbolta.net að þetta væri rétt. Hann væri staddur í Austurríki þar sem liðið er í æfingarferð og fer þar í læknisskoðun.

Liðið varð meistarari á síðustu leiktíð en liðið rústaði deildinni þar í landi. Þeir voru með sextán stigum meira en næsta lið en 29 ára gamall Bosníumaður stóð vaktina flesta leikina í markinu í fyrra.

Liðið tók einnig þátt í Meistaradeildinni þar sem liðið var með Chelsea, Roma og Atletico Madrid í riðli en nú spila þeir gegn Olimpija í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Fyrri leikurinn fer fram ellefta júlí, í næstu viku, og sá síðari viku síðar eða átjánda júli. Qarabag byrjar á útivelli en gangi allt upp hjá Hannesi eru líkur á að hann standi í markinu í þessum leikjum.

Undanfarin tvö ár hefur Hannes leikið með Randers í Danmörku en liðið rétt slapp við fall á síðustu leiktíð. Einnig hefur hann spilað með Sandnes Ulf, NEC og Bodo/Glimt í atvinnumennsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×