Erlent

Árangur Englands á HM orðinn óvæntur höfuðverkur fyrir forsætisráðherrann

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Charles Michel, forsætisráðherra Belga, afhentu Theresu May belgísku landsliðstreyjuna á dögunum. Svo gæti farið að England og Belgía mætist í úrslitum HM.
Charles Michel, forsætisráðherra Belga, afhentu Theresu May belgísku landsliðstreyjuna á dögunum. Svo gæti farið að England og Belgía mætist í úrslitum HM. Vísir/Getty
Ákvörðun Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að sniðganga heimsmeistaramótið er orðin að pólítísku sjálfsmarki fyrir ráðherrann vegna árangur Englands á mótinu, að mati blaðamanns Bloomberg.

England komst sem kunnugt er áfram í átta-liða úrslit mótsins með sigri gegn Kólombíu í vítaspyrnukeppni í gær. Í frétt Bloomberg um málið segir að undir venjulegum kringumstæðum myndi hvaða breski leiðtogi sem er stökkva til og baða sig í sviðsljósinu í kjölfar sigursins.

En fyrir May er það ekki möguleiki, ekki nóg með það að hún hafi takmarkaðan áhuga á knattspyrnu, þá ákvað hún að enginn breskur ráðherra né meðlimur konungsfjölskyldunnar yrði viðstaddur mótið vegna taugaeitursárásarinnar í Salisbury fyrr á árinu. Bretar hafa sakað Rússa um að hafa skipulagt árásina.

Þrýstingur á May er mikill heimafyrir, ekki síst vegna Brexit en einnig er von á Donald Trump í heimsókn til Bretlands auk þess sem að framundan er leiðtogafundur NATO-ríkjanna þar sem búist er við átakafundi vegna krafa Trump um að önnur ríki Nato greiði meira til bandalagsins.

Því hafi það verið kjörið tækifæri fyrir May að skella sér til Rússlands á HM til þess að baða sig í árangri landsliðsins sem mætir Svíþjóð í átta-liða úrslitum og eygir von á fyrsta heimsmeistaratitli Englands frá árinu 1966.

Ráðuneyti May hefur staðfest að forsætisráðherrann muni halda sig heima þrátt fyrir árangur Englands. Í frétt Bloomberg kemur hins vegar fram að það sé óvæntur höfuðverkur fyrir hana að á sama tíma og hún muni ekki fara til Rússlands hafi Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, gefið það út að hann sé óbundinn af ákvörðun May um að ráðherrar heimsæki ekki Rússland, og því frjáls til þess að næla sér í pólitísk stig á kostnað May.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×