Innlent

Almannavarnir meta ástandið í Hítardal

Kjartan Kjartansson skrifar
Skriðan er há enda féll heil öxl úr fjallinu, að sögn Erlu Daggar.
Skriðan er há enda féll heil öxl úr fjallinu, að sögn Erlu Daggar. Erla Dögg Ármannsdóttir
Fulltrúar almannavarna meta nú aðstæður í Hítardal á Mýrum þar sem stór skriða féll úr Fagraskógarfjalli og stíflaði Hítará snemma í morgun. Stórt lón hefur myndast í dalnum fyrir ofan stífluna. Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út til að aðstoða við að fá yfirsýn yfir svæðið með drónum og tryggja öryggi.

Erla Dögg Ármannsdóttir, íbúi á bænum Hlítardal, sagði Vísi í dag að stór öxl hafi fallið úr fjallinu í morgun. Skriða sé einhverra tuga metra há og að minnsta kosti fimmhundruð metra löng. Hún hafi algerlega stíflað farveg Hítarár.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, kannar lögregla og fulltrúi aðgerðastjórnar björgunarsveita á svæðinu aðstæður. Um hálf tvö leytið var óskað eftir aðstoð björgunarsveita með fólki og drónum til að meta mögulega hættu og tryggja öryggi og lokanir á umferð. Ekki sé ljóst hvert vatnið úr ánni leitar vegna stíflunnar.

Enn hefur þó ekki verið lokað formlega fyrir umferð um svæðið eftir því sem Davíð Már kemst næst.

Starfsmenn ofanflóðavaktar Veðurstofunnar eru sagðir á leiðinni á staðinn en Davíð Már segir ekki hægt að útiloka frekari skriðuföll með fullri vissu.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur er með Hítará á leigu. Forsvarsmenn félagsins eru einnig á staðnum til að meta ástandið. Farvegur árinnar hefur þornað upp, um tíu kílómetra niður frá skriðunni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×