Innlent

Veðrið sagt minna meira á haust en hásumar

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar á vestanverðu landinu hafa enn ekki komist að því hvað þeir gerðu til að reita veðurguðina til reiði í sumar.
Íbúar á vestanverðu landinu hafa enn ekki komist að því hvað þeir gerðu til að reita veðurguðina til reiði í sumar. Vísir/GVA

Myndarleg lægð veldur hvössum vindi síðar í dag og á morgun. Gul veðurviðvörun er á vestanverðu landinu og Miðhálendinu vegna storms. Veðurfræðingur segir óvenjulegan hitamun á milli landshluta minna frekar á haust en hásumar.

Búist er við suðaustan stormi með meira en 20 metrum á sekúndu í vindstrengjum á Breiðafirði, Vestfjörðum og á Miðhálendinu síðdegis og í kvöld. Þá er búist við snörpum vindkviðum undir Hafnarfjalli.

Í nótt á vindinn að lægja en magnast svo aftur upp á morgun með suðvestan hvassviðri eða stormi með snörpum vindhviðum norðvestantil á landinu og Miðhálendinu.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, skrifar um veðrið á Facebook-síðu sinni myndarleg lægð myndist við landið af völdum háloftadrags sem komið er langt að úr norðvestri. Lægðin fari fyrir vestan land og óvenjulega mikill hitamunur verði yfir landinu yfir hásumar. Hitamunurinn valdi vindinum í dag og á morgun.

„Það er einmitt þetta sem er óvenjulegt og minnir frekar á haust en hásumar,“ segir Einar um hitamuninn.

Hann býst ekki við því að veðrinu sloti fyllilega fyrr en seint á þriðjudag eða miðvikudag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.