Erlent

Boris Johnson segir af sér

Atli Ísleifsson og Gunnar Hrafn Jónsson skrifa
Boris Johnson.
Boris Johnson. Vísir/AFP

Boris Johnson hefur sagt af sér sem utanríkisráðherra Bretlands. Frá þessu er greint á vef Sky News. Afsögn Boris Johnson kemur í kjölfar afsagnar David Davis, ráðherra Brexit-mála, í gær. 

Tilkynnt var um afsögn Johnson um hálftíma áður en Theresa May forsætisráðherra hugðist kynna Brexit-áætlun stjórnar sinnar fyrir þinginu.

Skiptar skoðanir hafa verið innan breska Íhaldsflokksins um framgöngu stjórnvalda á Brexit-ferlinu og segir Johnson stefnu stjórnarinnar „ekki [hafa verið] bestu áætlunina“.

Staða May í stóli forsætisráðherra er af fréttskýrendum talin hafa veikst við afsögn Davis í gær og með afsögn Johnson þykir ljóst að þrýstingur á hana eykst enn.

Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu breska var Johnson þakkað fyrir sín störf og að fljótlega yrði arftaki hans í embætti utanríkisráðherra kynntur til sögunnar.

Vandræðalegt og erfitt
Laura Kuenssberg, fréttaskýrandi BBC, segir að brotthvarf Johnson úr ríkisstjórn sé vandræðalegt fyrir May og skilji hana eftir í mjög erfiðri stöðu. Johnson hafi verið „andlit“ Brexit-sinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016 og að brotthvarf hans kunni að leiða til einvígis milli May og Johnson um leiðtogasætið innan Íhaldsflokksins.

Fréttamaður Sky segir ljóst að með uppsögnum Davis og Johnson sé „uppreisnin“ Brexit-sinna innan Íhaldsflokksins hafin.Nigel Farage, fyrrverandi leiðtogi UKIP, hrósar Johnson á Twitter og hvetur til þess að Bretar losi sig sem fyrst við May úr embætti forsætisráðherra til að hægt verði að koma Brexit-ferlinu aftur á „réttan kjöl“.Slæm áhrif á samningsstöðu
Davis sagði í opnu afsagnarbréfi sínu að honum hafi þótt stefna stjórnarinnar of lin og hún hafi haft slæm áhrif á samningsstöðu Breta.

Johnson tók við embætti utanríkisráðherra Bretlands í júlí 2016. Hann tók við embættinu af Philip Hammond. Hann var borgarstjóri Lundúna á árunum 2008 til 2016.

Fylgst var með gangi mála í vaktinni hér að neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.