Erlent

Leikarinn Tab Hunter er látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tab Hunter árið 1955.
Tab Hunter árið 1955. Vísir/Getty
Bandaríski leikarinn Tab Hunter er látinn, 86 ára að aldri, en hann var þekktur hjartaknúsari á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Hunter var samkynhneigður og er hans einna helst minnst fyrir að vera talsmaður og fyrirmynd hinseginfólks.

Hunter lést í gær í Santa Barbara í Kaliforníu af völdum blóðtappa í fæti, sem leiddi til hjartaáfalls. Allan Glaser, kærasti Hunters til 35 ára, staðfesti dánarörsökina í samtali við Variety.

Hunter lék í kvikmyndum á borð við Damn Yankees og Battle Cry og þá gaf hann út hið vinsæla lag Young Love. Kynhneigð Hunters var þó alltaf á milli tannanna á fólki, sem hafði slæm áhrif á feril hans á sínum tíma.

Hann kom út úr skápnum árið 2005 í bók sinni Tab Hunter Confidential: The Making of a Movie Star. Þar skrifaði Hunter um tilraunir myndvera í Hollywood til að hylma yfir kynhneigð hans, m.a. með því að láta hann þykjast eiga í ástarsamböndum við leikkonur á borð við Debbie Reynolds og Natalie Wood.

Hunter var ávallt tvístígandi yfir hlutverki sínu sem talsmaður réttindabaráttu hinseginfólks. Haft var eftir honum í viðtali árið 2015 að hlutverkið hefði reynst honum óþægilegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×