Innlent

Fjöldi fíkniefnamála í Laugardalnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Secret Solstice-tónlistarhátíðin stendur nú yfir í Laugardalnum.
Secret Solstice-tónlistarhátíðin stendur nú yfir í Laugardalnum. Vísir/Jóhanna
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að afskipti hafi verið höfð af rúmlega þrjátíu einstaklingum vegna vörslu fíkniefna í Laugardalnum þar sem tónlistarhátíðin Secret Solstice fer fram í gærkvöldi og í nótt. Þá komu upp nokkur mál sem tengjast líkamsárásum.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Stöð 2 greindi frá því í gær að foreldrar hefðu áhyggjur af fíkniefnaneyslu barna sinna á tónlistarhátíðinni og settu spurningarmerki við öryggisgæslu. Þar hefði orðið vart við talsverða kannabisneyslu og unglingadrykkju.

Utan hátíðarinnar var töluvert um ölvunar- og fíkniefnaakstur í borginni í gærkvöldi og í nótt og voru nokkrir ökumenn vistaður í fangageymslu lögreglu vegna ástands síns.

Í Eskihlíð í Reykjavík var innbrotsþjófur handtekinn á fjórða tímanum í nótt. Maðurinn er sagður hafa farið inn um glugga íbúðar og stóð hann þar á gólfinu þegar íbúar komu að honum. Þjófurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Þá voru tveir menn handteknir við Hamraborg í Kópavogi fyrir að ráðast á dyravörð á veitingahúsi. Þeir fengu einnig að gista fangageymslu lögreglu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.