Fótbolti

Rooney: Hef alltaf stefnt að því að spila í MLS

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Wayne Rooney mættur til Bandaríkjanna
Wayne Rooney mættur til Bandaríkjanna Heimasíða DC United
Einn sigursælasti leikmaður enska boltans undanfarinn áratug, Wayne Rooney, er genginn til liðs við DC United sem leikur í bandarísku úrvalsdeildinni.

Gengið var frá samningum í gær og gerir þessi fyrrum landsliðsfyrirliði Englands þriggja og hálfs árs samning við félagið en Rooney kemur til Bandaríkjanna frá Everton.

„Nú er að hefjast spennandi kafli á mínum ferli og ég er mjög spenntur fyrir því. Það hefur alltaf verið á stefnuskránni hjá mér að koma hingað til Bandaríkjanna á einhverjum tímapunkti og ég held að þetta sé rétti tíminn,“ sagði Rooney við komuna til Washington í gær.

Rooney er 32 ára gamall og verður minnst sem einn af bestu leikmönnum í sögu Manchester United enda markahæsti leikmaður í sögu félagsins ásamt því að vera markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins.

Hann hefur mikla trú á framtíð DC United en félagið hefur fjórum sinnum unnið MLS deildina; síðast árið 2004.

„Ég er mjög spenntur fyrir því verkefni sem er í gangi hjá DC og þeir kynntu það vel fyrir mér. Það er ástæðan fyrir því að ég valdi að koma hingað,“

DC United situr nú á botni Austurdeildarinnar og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu tólf leikjum sínum.

„Já það er rétt að þetta verður krefjandi en liðið hefur spilað marga útileiki. Við eigum marga heimaleiki framundan og þurfum að bæta okkur; komast ofar í töflunni á þessu tímabili og byggja ofan á það í kjölfarið,“ segir Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×