Erlent

Vill hleypa farandfólki í land í trássi við vilja ríkisstjórnarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarskipið Aquarius við höfn í Sikiley í apríl.
Björgunarskipið Aquarius við höfn í Sikiley í apríl. Vísir/EPA

Borgarstjóri ítölsku borgarinnar Palermo á Sikiley ætlar að leyfa björgunarskipi með á sjöunda hundrað farandfólki sem bjargað var á Miðjarðarhafi að leggjast að bryggju í borginni þrátt fyrir að ný ríkisstjórn popúlista hafi lýst ítalskar hafnir lokaðar fyrir farandfólki.

Björgunarskipið Aquarius á vegum þýsku hjálparsamtakanna SOS Méditerranée hefur verið fast úti á hafi eftir að stjórnvöld á bæði Möltu og Ítalíu neituðu því um leyfi til að koma til hafnar. Um borð eru 629 manns sem var bjargað á líbísku hafsvæði.

Þrátt fyrir að málið félli undir lögsögu Ítalíu bað Matteo Salvini, innanríkisráðherra og leiðtogi Bandalagsins, annars stjórnarflokksins í nýrri ríkisstjórn popúlista og hægriöfgamanna, stjórnvöld á Möltu um að taka við skipinu. Því höfnuðu Maltverjar.

Bandalagið hefur boðað herta stefnu í innflytjendamálum og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að loka höfnum landsins fyrir farandfólki er talið fyrsta skýra dæmið um að þá stefnu í framkvæmd.

Leoluca Orlando, borgarstjóri Palermo, sakar Salvini um að brjóta gegn alþjóðalögum með því að banna skipinu að koma til hafnar, að sögn The Guardian.

„Hann hefur enn á ný sýnt að við erum undir öfgahægriríkisstjórn,“ segir borgarstjórinn.

Borgarstjórar annarra borga á Suður-Ítalíu, þar á meðal í Napolí, Messina og Kalabríu, hafa lýst stuðningi við Palermo og segjast einnig tilbúnir að óhlýðnast skipunum ríkisstjórnarinnar.


Tengdar fréttir

Komast hvergi í land

629 flóttamönnum var bjargað á leið þeirra yfir miðjarðarhafið af skipinu Aquarius, skipið fær þó hvergi leyfi til að koma að landi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.