Fótbolti

Sverrir Ingi: Þetta köllum við nú bara hafgolu

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Sverrir Ingi á æfingu í dag.
Sverrir Ingi á æfingu í dag. vísir/vilhelm
Sverrir Ingi Ingason, miðvörður íslenska landsliðsins, er hæstánægður með aðstæður í Kabardinka þar sem að liðið æfir en völlurinn lítur glæsilega út og virkar í topp standi.

„Völlurinn er frábær og bara eins góður og að hann getur verið, held ég,“ segir Sverrir Ingi sem var í viðtölum fyrir æfingu strákanna okkar í dag.

Veðrið setti smá strik í reikninginn á æfingasvæðinu í dag. Mikið rok var í nótt sem felldi grindur sem áttu að koma í veg fyrir að blaðamenn á svæðinu gætu horft á æfinguna. Þeir voru í staðinn sendir heim þegar að æfingin hófst.

„Þeir kalla þetta rok hérna en við þekkjum þetta ekki sem rok heima. Þar er þetta eiginlega hafgola. Það er fínt að fá smá kælingu inn á milli í hitanum,“ segir Sverrir léttur, en aðstæður á hótelinu eru einnig mjög góðar, að hans sögn.

„Hótelið er mjög fínt. Það er búið að gera það eins gott og mögulegt er fyrir okkur þannig að okkur líður vel þarna. Menn hafa verið að aðlagast tímamismuninum en svo erum við með ýmislegt sem er búið að setja upp fyrir okkur. Okkur ætti ekki að leiðast þarna.“

Miðvörðurinn öflugi hefur sett mikla pressu á Ragnar Sigurðsson og Kára Árnason og gæti allt eins byrjað fyrsta leik á móti Argentínu. Hann miðar allavega sinn undirbúning við það.

„Auðvitað reynir maður að undirbúa sig eins og maður sé að fara að spila en það verður bara að koma í ljós hvað gerist. Þetta verða þrír hörkuleikir með mislöngum tíma á milli þannig að þeir leikmenn sem byrja ekki fyrsta eða annan leik þurfa að vera klárir þegar að kallið kemur,“ segir Sverrir, en hefur samkeppnin áhrif á vinskap þremenninganna?

„Alls ekki. Við náum allir mjög vel saman. Við erum allir saman í þessu hvort sem að það sé ég eða einhver annar sem spilar. Við styðjum hvorn annan alla leið enda vitum við að okkar sterkasta vopn er liðsheildin. Við munum klárlega halda áfram að styðja hvorn annan því að það er það sem hefur verið að virka,“ segir Sverrir Ingi Ingason.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar á FacebookTwitter og Instagram.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×