Innlent

Hefur fjórar vikur til að greiða risasekt í ríkissjóð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn var fundinn sekur um meiriháttar brot á skattalögum.
Maðurinn var fundinn sekur um meiriháttar brot á skattalögum. Vísir/Stefán
Karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum. Alls sveik hann 140 milljónir króna út úr ríkissjóði. Var maðurinn dæmdur til greiðslu 666 milljóna króna sektar sem hann þarf að greiða innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 360 daga.

Var maðurinn ákærur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður þriggja félaga. Brotin áttu sér stað á árunum 2012 til 2015.

Offramtaldi maðurinn virðisaukaskattsskylda veltu, útskatt og innskatt. Í alvarlegasta brotinu útbjó hann 22 tilhæfulausar virðisaukaskattsskýrslur, þar sem hann offramtaldi virðisaukaskattsskylda veltu um samtals 905 milljónir og innskatt um samtals 187 milljónir en með því fékk hann 114 milljónir frá ríkinu í formi endurgreiðslu innskatts.

Þá ýmist offramtaldi eða vanframtaldi maðurinn innskatt í tveimur af þeim þrem félögum sem um ræðir. Með því sveik maðurinn 26 milljónir úr ríkissjóði.

Við rannsókn málsins og fyrir dómi játaði maðurinn skýlaust brot sín en hann var árið 2012 dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals. Rauf hann það skilorð nú og var fyrri dómur því tekinn upp og dæmdur með því máli sem hér er fjallað um.

Var maðurinn dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum. Var maðurinn sem fyrr segir dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Þá þarf maðurinn að greiða 666 milljónir í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 360 daga.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×