Fótbolti

Skagamenn á toppinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Garðar skoraði eitt í kvöld.
Garðar skoraði eitt í kvöld. vísir/ernir
Skagamenn eru á toppi Inkasso-deildarinnar í fótbolta eftir 3-0 sigur á ÍR á Akranesi í kvöld en leikurinn var liður í sjöttu umferð deildarinnar.

Fyrsta markið kom á 40. mínútu en það gerði Hafþór Pétursson en annað markið kom ekki fyrr en á 86. mínútu. Það gerði Stefán Teitur Þórðarson.

Garðar Bergmann Gunnlaugsson byrjaði á bekknum en kom inn á og lék síðustu tuttugu mínúturnar. Hann skoraði þriðja og síðasta mark ÍA þremur mínútum fyrir leikslok.

Skagamenn eru því með sextán stig á toppnum; fimm sigrar og eitt jafntefli. ÍR-ingar eru hins vegar í meira veseni, með þrjú stig í ellefta sæti deildarinnar.

Haukarnir rúlluðu yfir Selfyssinga á Ásvöllum, 5-3. Leiknum verður líklega minnst vegna afar athyglisverðar uppákomu í leiknum en um hana má lesa hér.

Rauðklæddir Haukamenn voru 4-0 yfir í hálfleik en á skotskónum voru Gunnar Gunnarsson, Aran Nganpanya, Elton Barros og Davíð Ingvarsson.

Kenan Turudija minnkaði muninn fyrir Selfyssinga áður en Arnar Aðalgeirsson skoraði fimmta mark Hauka. Aftur var Turudija á ferðinni fyrir Selfyssinga og minnkaði hann muninn í 5-2.

Turudija var ekki hættur því áður en yfir lauk skoraði hann þriðja mark sitt og þriðja mark Selfyssinga en nær komust þeir ekki og lokatölur 5-3. Skömmu fyrir leikslok fékk Gilles Mbang Ondo rautt spjald.

Haukarnir eru í þriðja sæti deildarinnar með tíu stig en Selfoss er í níunda sætinu með sjö stig.

Úrslit og markaskorar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×