Innlent

Málefnaþáttur Stöðvar 2: Skortur á húsnæði áskorun á komandi kjörtímabili

Birgir Olgeirsson og Höskuldur Kári Schram skrifa
Sveitarfélögin á Íslandi eru 74 og eftir kosningarnar á laugardaginn fækkar þeim um tvö og verða 72. Fréttamenn Stöðvar 2 og Vísis hafa farið vítt og breitt um landið og rætt við bæði frambjóðendur og kjósendur í bæði minnstu og stærstu sveitarfélögunum.

Eitt mál var ofarlega á baugi nánast alls staðar og hjá nánast öllum sem við töluðum við: húsnæðismál. Á stöðum þar sem fólk, sem vildi flytja sig í þéttbýlið, átti áður erfitt með að losa sig við íbúðir er núna skortur á húsnæði. Byggingarkranarnir eru aftur farnir að teygja sig til himins – og núna út um allt land. Við fjöllum um húsnæðismál í öðrum málefnaþætti Stöðvar 2 fyrir sveitarstjórnakosningarnar 2018.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Landsmönnum hefur fjölgað um tæplega tuttugu og þrjú þúsund á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka og er óhætt að segja að íbúaþróun í flestum landshlutum hafi verið jákvæð. Á Akranesi fjölgaði íbúum um átta prósent, tæp tvö prósent í Ísafjarðarbæ, þrjú komma sjö prósent á Akureyri og um tæpt prósent í Dalvíkurbyggð. Í Fljótsdalshéraði fjölgaði íbúum um 2,5 prósent, í Árborg um 14 prósent og í Reykjanesbæ um 22 prósent.

„Fólk þegar orðið bjartsýnt“

Fyrir mörg bæjar- og sveitarfélög hefur þetta kallað á nýjar áskoranir í uppbyggingu húsnæðis til að svara aukinni eftirspurn. Ný atvinnutækifæri hafa sprottið upp til dæmis í tengslum við laxeldi á Vestfjörðum og þar ríkir mikil bjartsýni sem og í öðrum landshlutum.

„Og ég held eins og núna þá er fólk að sækja um lóðir. Fólk er þegar orðið bjartsýnt. Þannig að við erum að fara byggja einbýlishúsabyggð og við erum að afgreiða núna umsóknir. Við höfum haft það að leiðarljósi núna að reyna að hjálpa þessu fólki með því að rukka ekki gatnagerðargjöld til dæmis og ég hefði viljað að orkubúið kæmi inn í það mál líka að það þyrfti ekki að borga heimtaugagjald til dæmis. Ef allir leggjast á árarnar þá erum við að gera góða hluti,“ segir Marzelíus Sveinbjörnsson oddviti Framsóknarflokks í Ísafjarðarbæ.

„Það er mikill uppgangur hérna núna og verður örugglega. Núna er búið að selja nánast alla kofa sem til eru hvort sem þeir eru íbúahæfir eða ekki. Allt selt,“ segir Úlfar Önundarson Önfirðingur, en bærinn Flateyri, sem tilheyrir Ísafjarðarbæ, er í Önundarfirði.

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs segir ljóst að sveitarfélagið þurfi að byggja til að mæta félagslegri þörf.

„Það er alveg ljóst að það er fjölgun. Það er jákvætt vandamál að það þurfa að bæta við,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Talsvert framboð er af húsnæði á Akureyri að sögn oddvita Sjálfstæðismanna.

„Það er töluvert framboð af húsnæði núna. Það er verið að byggja mikið eins og hérna í Hagahverfinu og stendur til að fara út í þorp. Það virðist ekki hafa verið vandamál. Það hefur verið næg eftirspurn og íbúðaverð hefur bara hækkað töluvert síðustu árin,“ segir Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna.

Oddviti Framsóknarflokksins á Hornafirði segir íbúaþróunina hafa verið stöðuga upp á við frá árinu 2010.

„Núna erum við í þeirri stöðu að það er skortur á húsnæði fyrir fólk. Það eru að aukast íbúar. Við erum líka með íbúa sem eru tímabundnir það er mikil ferðaþjónusta hér líka. Það er bjart fram undan og það er aðallega það að húsbyggingarnar það vantar meira. En sveitarfélagið hefur verið að spýta í lófana þar, þannig að það er bjart fram undan,“ segir Ásgerður Kristín Gylfadóttir, oddviti Framsóknarflokksins á Hornafirði.

„Hvernig er fasteignamarkaðurinn? Það er frekar erfitt. Hann fór að lifna við fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá fór að verða meiri eftirspurn eftir húsnæði. Það var farið að sækja um lóðir og úthluta lóðum o.s.frv. í töluverðum mæli, skipuleggja ný hverfi. Þannig að þetta er allt á réttri leið,“ segir Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri í Borgarbyggð.

„Það er orðinn húsnæðisskortur. það er einfaldlega þannig. Það er nánast búið að kaupa upp allt sem er falt. Til dæmis bara á Bíldudal, á tímabili voru fimm hús, þetta er ekki stór staður. Það voru fimm hús sem voru í endurbótaferli. Það var allt rifið út og sett nýtt inn. Það var bara þörf á því,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir - Oddviti Nýrrar sýnar í Vesturbyggð.

„Ég myndi segja að fasteignaverð hefur heldur verið að hækka á undanförnum einu og hálfa ári og ég held við eigum einhverjar hækkanir inni en auðvitað erum við að horfa á það eins og alls staðar annars staðar á landsbyggðinni að fasteignaverð er heldur lægra á landsbyggðinni heldur en á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Bjarni Th. Bjarnason - sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.

„Það er mikill skortur á húsnæði og það er verið að tala við mann á hverjum degi og spyrja út í húsnæði. Fólk er í miklum vandræðum og þau fyrirtæki sem hér eru í vandræðum með að finna húsnæði fyrir sitt starfsfólk. Ég held að það verði mikið áherslumál í kosningunum núna að það verði reynt að finna einhverjar lausnir á því,“ segir Arnbjörg Sveinsdóttir - bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks á Seyðisfirði.

Vísir/Arnar
Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur fundið fyrir fjölgun

Sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa sérstaklega fundið fyrir mikilli fólksfjölgun á undanförnum árum.

„Það hefur verið mikil fjölgun, mikil ásókn í lóðir hérna og það fór nú svo á síðasta sumri að lagerinn, lóðalagerinn okkar, hann þurrkaðist upp þannig að við höfum verið að vinna núna að gatnaframkvæmdum og lögnum og nýju hverfi. Það mun duga okkur næstu árin. Þar fyrir utan þá er hverfi tilbúið í aðalskipulagi sem við getum bætt við þar á eftir. En ásókn hefur verið mikil þannig að við erum að reyna að undirbúa að sem flestir geti komið hingað,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.

„Það er búið að fjölga mjög verulega hérna á síðustu þremur árum. Um sirka sex prósent á ári. Hér voru íbúar fyrir einhverjum fjórum árum rétt um fjórtán hundruð. Í dag eru þeir um sextán hundruð. Þannig að það hefur fjölgað verulega í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum undanfarin tvö til þrjú ár,“ segir Magnús Stefánsson - bæjarstjóri í Garði.

„Við getum alltaf tekið við fleiri góðu fólki en það er stöðug fjölgun hér í Hveragerði en þó ekki eins og hefur verið á Selfossi,“ segir Garðar Rúnar Árnason - oddviti frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

„Við erum að skipuleggja byggð fyrir fimmtán hundruð manns og við erum að fara að byrja á henni núna. Við höfum undan. Það er talsvert mikið af óbyggðum lóðum enn þá. Við erum að skipuleggja stórt svæði og við getum byggt meira,“ segir Gunnar Egilsson formaður bæjarráðs í Árborg

Á dögunum opnaði fjórða fasteignasalan hér á Akranesi enda fasteignamarkaðurinn hér í blóma.

„Ásóknin er mikil og allt það sem verktakar taka að sér hér og fá úthlutað í lóðum selst eins og heitar lummur. Við höfum verið að úthluta eða undirbúa þrjá reiti það er Skógarhverfi sem að hefur verið að fara mikið út, Dalbrautarreitur sem er í útboði núna og svo erum við að undirbúa Sementsreitinn stóra þar sem við stöndum núna í niðurrifi þannig að það er mikið fram undan,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness.

„Við erum aðeins seinni á bylgjunni heldur en niðri á Skaga því það er aðeins lengra til okkar frá höfuðborgarsvæðinu heldur en upp á Skaga samt hefur íbúafjöldinn þokast upp á við svona tvö prósent á ári undanfarin ár. Þannig að þetta er allt í rétta átt,“ segir Gunnlaugur Júlíusson - Sveitarstjóri Borgarbyggðar.

Fasteignaverð tekið miklum breytingum

Þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni hefur tekið miklum breytingum á undanförnum misserum samkvæmt nýlegri skýrslu Íbúðalánsjóðs. Víða á landsbyggðinni hefur íbúðaverð þannig hækkað hraðar en á höfuðborgarsvæðinu og þá tekur mun styttri tíma að selja fasteignir.

„Við finnum það að það er búið að vera töluvert svona á tveggja þriggja ára tímabili hækkun á markaðsvirði. Við fáum eignir aftur á sölu sem við seldum fyrir tveimur þremur árum og sjáum það svart á hvítu að það er jafnvel meiri hækkun en við höfðum áttað okkur ár,“ segir Hilmar Gunnlaugsson fasteignasali á Egilsstöðum.

„Fasteignaverð hefur hækkað talsvert mikið. Það byrjaði hérna 2011 þegar Fasteignamat ríkisins hækkaði bara almennt álögur hjá sér eða prósentuna. Svo hefur bara allt verið að blómstra á Húsavík og þá hækkar virði fasteigna og á móti hækka gjöldin,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason - oddviti framsóknarmanna í Norðurþingi.

En þó fasteignaverð fari víða hækkandi glíma menn enn við þann vanda að það stendur sjaldan undir kostnaði að byggja ný hús.

„Fasteignamat hefur farið hér upp ár frá ári og fasteignamatið endurspeglar þá kaupsamninga sem eru gerðir í bæjarfélaginu. Það hefur hækkað meira hér Siglufjarðarmegin heldur en Ólafsfjarðar. En það er á uppleið en við erum ekki komin á þann stað að nýbyggingarkostnaður standi undir markaðsvirði eigna,“ segir Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar.

„Byggingarkostnaður er hærri heldur en markaðsverð er enn þá. Það er viðvarandi vandi í flestum minni byggðum úti á landi. En vonandi breytist það. En það hefur ekki breyst enn þá en samt er kallað eftir húsnæði þrátt fyrir að menn treysti sér ekki að fara í nýbyggingar sérstaklega einstaklingar,“ segir Arnbjörg Sveinsdóttir - bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks á Seyðisfirði.

„Þetta er aðallega það að það er dýrt að byggja úti á landi. Og það er kannski ekki kostur að hlaupa frá því ef maður vill ekki búa lengur á sama stað og þú ert ekki tilbúin að selja eign fyrir minni pening en þú byggðir hana. En ég held að aukningin felist í því núna að það er erfitt að búa í Reykjavík og dýrt að búa á Suðurlandi. Ég held að það sé það sem að unga fólkið sé að horfa í og svo eru bara margir sem vilja koma heim. Þeir sem hafa farið burt til að mennta sig og svona,“ segir Sólveig Lilja Ómarsdóttir skólaliði.

„Það hefur hins vegar verið stöðugt vaxandi þörf á húsnæði og við finnum það núna að það er að myndast eftirspurn eftir nýju húsnæði og verðið er farið að standa undir eða vera nálægt því að geta staðið undir slíku,“ segir Hilmar Gunnlaugsson fasteignasali á Egilsstöðum.

Þá hefur það einnig færst í aukanna á undanförnum árum að utanbæjarfólk kaupi íbúðarhúsnæði og breyti því í orlofshús.

„Það er gott og slæmt. Margir þessara aðila sem eiga þessi hús hafa gert þau mjög flott og annað en það er engin búseta í húsunum nema rétt yfir sumarið. Einu tekjurnar sem bæjarfélagið hefur eru fasteignagjöld. Það er enginn sem borgar hér útsvar eða neitt. En það er Airbnb og allt en það er bara á minni skala hér en fyrir sunnan,“ segir Gunnar I. Birgisson.

Norðfjörður brosti sínu breiðasta í lok apríl þegar fulltrúar fréttastofu kíktu í heimsókn.Vísir/Einar
Eftirspurn meiri en framboð

Mikilli fjölgun íbúa fylgja margar áskoranir og jafnvel vaxtarverkir. Þetta kallar á mikla uppbyggingu innviða og þá getur þetta einnig skapað vandamál þegar kemur að úthlutun lóða en eftirspurn er oft meiri en framboð. Þessi vandi er áberandi í bæjar- og sveitarfélögum nálægt höfuðborgarsvæðinu.

„Það er ljóst að það þarf að stöðugt nægar lóðir til úthlutunar. Það hefur aðeins klikkað á þessu kjörtímabili. Það hefur verið mikil ásókn í lóðir og skortur á leiguhúsnæði,“ segir Njörður Sigurðsson – oddviti Listans í Hveragerði.

„Ef það ætti að benda á eitthvað sem við hefðum þurft að standa okkur enn betur en við höfum gert það er við hefðum átt að vera enn duglegri að bjóða fram lóðir,“ Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness.

„Eruð þið að missa frá ykkur fólk vegna húsnæðisskorts? Nei ég segi það nú ekki en það myndi fjölga meira ef það væri meira húsnæði í boði,“ Helgi Kjartansson – oddviti T-listans í Bláskógabyggð.

„Það er búið að úthluta nú þegar á þessu ári held ég lóðum fyrir tíu tólf íbúðir og það liggja fyrir töluvert af umsóknum um lóðir núna sem verða teknar til afgreiðslu á næstunni,“ segir Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Garði.

„Verðið hefur hækkað svo ört og það hefur tvær hliðar. Þeir eru ánægðir sem eiga eignirnar, eignirnar hækki og verði verðmeiri en þeir sem eru að kaupa í fyrsta skipti þeir eru ekki kátir og það vantar svolítið í þessum ódýrari kanti,“ Soffía Magnúsdóttir fasteignasali á Akranesi.

„Það er búið að fjölga mjög mikið samt eins og maður segir passlega því það er mikilvægt að fjölga ekki of hratt því að innviðir bæjarfélagsins þurfa að geta tekið á móti þeim íbúum sem hér vilja búa og þar hefur okkur tekist mjög vel til, held ég að ég geti fullyrt, því að ánægja íbúa með þjónustu bæjarfélagsins mælist varla nokkur staðar meiri á landinu heldur hér,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir - oddviti sjálfstæðismanna í Hveragerði.

„Við getum tekið á móti fleiri íbúum og reiknum með því að getað fjölgað íbúum hressilega næstu fjögur árin. Það er nú bara þannig og þróunin er að fólk er að flytja frá höfuðborgarsvæðinu og sumir kjósa að sækja vinnu þangað eða bara flytjast búferlum í svona minni þéttbýli úti á landi. Og þá viljum við bara að sjálfsögðu bjóða fólk velkomið í okkar litla og vinalega samfélag hér,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna í Borgarbyggð.

„Hérna erum við líka að glíma við þéttingu byggðar á móti því hvort það eigi að dreifa henni meira. En það er allavega gríðarlegur vöxtur og mikil úthlutun og aðalskipulagið komið í gegn eins og það var á þessu kjörtímabili þannig að það er gert ráð fyrir fjölgun á lóðum,“ Hilda Jana Gísladóttir - oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri.

„Við erum að nálgast það núna að það er að verða mikið ákall um uppbyggingu þess vegna er það bagalegt að það hefur tekið langan tíma að endurskoða skipulagið í miðbænum á Egilsstöðum það er eitthvað sem hefði þurft að ganga mun harðar fram í að klára. Eins og staðan er núna þá er þar ákveðinn þröskuldur. Það þarf að lækka þann þröskuld og tryggja það að þeir sem hafa áhuga á því að fjárfesta og byggja upp geta það,“ segir Stefán Bogi Sveinsson oddviti Framsóknar í Fljótsdalshéraði.

„Við höfum verið að vinna að húsnæðisáætlun og þar kemur fram að við eigum í það minnsta til fjögurra til sex ára nægt lóðaframboð en við þurfum að fara horfa til framtíðar og fara að skipuleggja meira svæði. Bæði iðnaðarlóðir, þ.e. fyrir verslun og iðnað og íbúðir,“ Anna Alexandersdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks í Fljótsdalshéraði.

„Það er sú staða uppi núna það er að fjölga og það er eftirspurn eftir húsnæði og við þurfum að stýra því hvar þetta húsnæði verður byggt og það er allt gert í gegnum skipulagsferlið og það verður að mínu viti stóra verkefnið næstu fjögurra ára að ná utan um það skipulag. Bæði aðalskipulag og deiliskipulag í sveitarfélaginu,“ segir Stefán Bogi Sveinsson oddviti Framsóknar í Fljótsdalshéraði.

Frá Akureyri.Vísir/Friðrik Þór
Erfitt að fá mannskap

Það er helst að verkefnin séu of mörg og erfitt að fá mannskap til að sjá um þau.

„Það er alveg hægt að eyða meiri peningum í þjónustu. Hér er bara verkefnastaðan hjá verktökum alls staðar og þannig að það vantar ekki að menn eigi peninga og vilji gera en það er erfiðara að fá verktaka í vinnu. Þeir hafa bara mikið að gera. Það er rosalega mikil uppbygging í ferðaþjónustunni og þetta er að verða orðið þannig út um allt land mjög erfitt að fá iðnaðarmenn það er svo mikið að gera,“ segir Björn Ingi Jónsson - oddviti sjálfstæðismanna í Austur-Skaftafellssýslu.

Þó vaxtarverkirnir séu margir ríkir bjartsýni meðal bæjar- og sveitarstjórnarmanna sem um árabil þurftu að glíma við fólksfækkun og stöðnun. Þeir vilja lækka álögur á komandi kjörtímabili, styrkja leigumarkaðinn og auka félagslegar lausnir á húsnæðismarkaði.

„Það þarf að koma böndum á leigumarkaðinn. Og það verður ekki gert eins og staðan er í dag. Nú er verið að byggja mikið í sveitarfélaginu. Það er verið að byggja mikið af dýrum íbúðum og dýru húsnæði. Þörfin er fólk sem býr heima í foreldrahúsum það hefur ekki efni á því að kaupa sér íbúð á 40 milljónir. Það gefur auga leið,“ segir Þórólfur Júlían Dagsson - oddviti Pírata í Reykjanesbæ.

„Það er biðlisti í félagslega húsnæðiskerfinu hjá okkur. Hefur alltaf verið og verður eflaust alltaf. Við rekum mjög stórt kerfi, við erum með um 230 íbúðir í félagslega kerfinu og það þyrfti að vera stærra miðað við þessa biðlista. Og það verður bara ævilangt verkefni að vinna í því máli. Þarf að byggja fleiri félagslegar íbúðir? Það þarf allavega að útvega fleiri félagslegar íbúðir miðað við þessa stöðu eins og hún er,“ segir Kjartan Már Kjartans son bæjarstjóri Reykjanesbæjar

„Eruð þið að missa frá ykkur fólk vegna húsnæðisskorts? Nei ég segi það nú ekki en það myndi fjölga meira ef það væri meira húsnæði í boði,“ segir Helgi Kjartansson – oddviti T-listans í Bláskógabyggð

„Er sveitarfélagið í stakk búið að taka á móti nýju fólki og jafnvel enn fleirum? Við höfum verið raun og verið betur í stakk búin heldur en flest sveitarfélög. Hér er allt í gangi og búið að vera lengi. Við byrjuðum á undan höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum til dæmis en þetta eru allt íbúðir og eignir til séreignar. Hér vantar leiguhúsnæði sárlega og hefur gert lengi. Og við sjáum ekki að þeirri eftirspurn verði svarað nema til komi aðstoð frá sveitarfélagi og jafnvel ríki,“ segir Álfheiður Eymarsdóttir sem skipar annað sæti á lista Áfram Árborg.

„Þyrfti sveitarfélagið að vera leiðandi í því í að byggja og bjóða út leiguhúsnæði? Við gætum verið leiðandi á ýmsan hátt. Eins og við erum að leggja til hjá T-listanum að vera með sjálfseignarstofnun í kringum leiguhúsnæði þar sem sveitarfélagið kæmi að þessu með örlitlum hætti og svo væri það ríkið og Íbúðalánasjóður. Þetta er svona Eyglóar Harðar frumvarp. Þannig að við ætlum að huga að því og kanna hvort þetta sé einhver möguleiki. Það er bara spennandi tækifæri,“ segir Helgi Kjartansson – oddviti T-listans í Bláskógabyggð.

„Við ætlum að leggja fram stofnfé í leiguhúsnæðisfélag sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Það hefur ekki verið sama íbúaþróun hjá ykkur eins og hjá Árborg hvað telur þú að valdi? Lóðaskortur,“ segir Njörður Sigurðsson - oddviti O-listans í Hveragerði.

„Við viljum byggja upp hér leiguhúsnæði og lítum þá til stofnframlaga íbúaðalánasjóðs og framlaga sem bærinn getur sett á móti. Til þess að gera framboðið fjölbreyttar í bæjarfélaginu á íbúðahúsnæði. Eruð þið að glíma við húsnæðisskort? Já við erum að gera það. Við finnum fyrir mikilli ásókn fyrir búsetu hér í Hveragerði og ég held að það megi orðað það þannig að það hefur verið uppselt í Hveragerði síðastliðin tvö ár,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í Hveragerði.

„Er auðvelt fyrir ungt fjölskyldufólk að kaupa sér húsnæði? ég held að þetta sé hérna á Akureyri kannski ekki sami vandinn og í Reykjavík. En samt. Auðvitað er aldurspýramídinn að breytast. Gríðarlega mikilvægt að Akureyrarbær taki þátt í því að vinna með ólíkum formum á húsnæðismarkaði þ.e. bæði að bjóða út lóðir miðað við minni húsnæði. Það er kannski ekki jafn mikil eftirspurn eftir risastórum einbýlishúsalóðum og síðan kannski fara meira í samvinnu við félög sem eru ekki hagnaðardrifin til þess að reyna að auðvelda ungu fólki sem er að hefja þessa vegferð á markaði og eldra fólki sem er að minnka við sig,“ segir Hilda Jana Gísladóttir - oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri.

„Það sem hefur verið vandamál hefur verið að fá húsnæði þá sérstaklega leiguhúsnæði til þess að byggja upp atvinnulíf og fá nýtt fólk í bærinn,. en við sjáum breytingu þar núna. Við höfum verið að úthluta lóðum. Töluvert mörgum lóðum og fólk er farið af stað að byggja sem er mjög jákvætt. Þannig að næsta verkefni sveitarstjórnar verður að skipuleggja nýjar lóðir. Þannig að það er mikil uppbygging í bænum? Já það er mikil uppbygging,“ segir Guðmundur St. Jónsson oddviti J-listans í Dalvíkurbyggð.

„Það er alveg ljóst að í Borgarbyggð er skortur á leiguhúsnæði og húsnæði fyrir fyrstu íbúðir og við viljum fara að vinna að því að marka íbúastefnu fyrir allt sveitarfélagið,“ Guðveig Eyglóardóttir - oddviti Framsóknarflokks í Borgarbyggð.

„Það er gríðarleg innspýting í ferðaþjónustunni. margar íbúðir eru undir ferðaþjónustu og svo er líka mikil innspýting vegna þess að PCC byggði hérna íbúðir og þess vegna held ég að það þurfi að greina stöðuna upp á nýtt,“ Hjálmar Bogi Hafliðason - oddviti framsóknarmanna í Norðurþingi.

Sæmundur Helgason, oddviti Þriðja framboðsins á Hornafirði, segir deili- og aðalskipulagið tilbúið undir frekari byggð.

„En auðvitað er verk að vinna á hverjum tíma þar. Það er fyrirséð að við þurfum að skipuleggja fleiri lóðir í öllu sveitarfélaginu. Það er nokkuð góðu fari en það má alveg bæta þar við og við erum svo sem með fyrirhugað í aðalskipulagi land fyrir fleiri lóðir,“ segir Sæmundur Helgason - oddviti Þriðja framboðsins á Hornafirði.

„Við leggjum líka áherslu á það að leysa málefni þeirra sem standa hallari fæti hvað þetta varðar og koma til móts við þá. Það er verið að fara af stað hérna með ekki hagnaðardrifin félög og búið að gera samning við þau um að koma inn á markaðinn og þá ættum við líka að geta boðið ódýrari húsnæði með,“ segir Gunnar Gíslason - oddviti Sjálfstæðismanna á Akureyri.

„Fólk er í ofsalega miklum vandræðum. Það hefur fjölgað mikið í Ásbrú vegna þess að það hefur verið eini staðurinn sem við höfum fengið íbúðir sem að fólk gæti hugsanlega haft efni á en þær eru líka dýrar. Þannig að við þurfum að fara að hugsa um það. Að vinna með verkalýðsfélögunum og fara að byggja minni, falleg raðhús, kannski 50-70 fm2,“ segir Dagný Alda Steinsdóttir oddviti VG og óháðra í Reykjanesbæ.

Binda vonir við aukna fjárfestingu

Sveitarstjórnarmenn binda líka vonir við auknar fjárfestingar í ferðaþjónustunni og það verði til þess að íbúum fjölgi.

„Ef að þau tækifæri sem eru í vinnslu núna ganga eftir þá gæti fjölgað hér um 100 til 200 manns á næstu fimm árum og við erum að vona að það gangi eftir. Það er veruleg fjölgun, tíu prósent? Já það er veruleg fjölgun. Hærri tekjur fyrir bæjarsjóðinn og hægt að gera meira fyrir íbúana bæði í framkvæmdum og þjónustu,“ segir Gunnar I. Birgisson sveitarstjóri Fjallabyggðar.

„Íbúarnir sjálfir þeir vilja sjá í öllum þessum uppgangi sem er í gangi í samfélaginu að nærumhverfið sé að batna. Þjónustan sé að skána, öryggið sé að skána og að fólki líði betur. Það sem við viljum gera við viljum skapa umhverfi fyrir fólki sem verður til þess að fólki l angar að flytja í okkar sveitarfélag. Hér eru nóg atvinnutækifæri það eru rosalega mikið í gangi hér í sveitarfélaginu,“ segir Axel Sæland 3. sæti á Þ-listans í Bláskógabyggð.

Það eru miklar áskoranir fram undan hjá bæjar-og sveitarstjórnarmönnum á komandi kjörtímabili en það er hins vegar kjósenda að ákveða hvaða leiðir verða fyrir valinu og það skýrist betur þegar talið verður upp úr kjörkössum á laugardag.


Tengdar fréttir

Málefnaþáttur Stöðvar 2: Ferðamannalandið Ísland

Í fyrsta málefnaþætti Stöðvar 2 fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara þann 26. maí næstkomandi er fjallað um ferðaþjónustuna sem hefur vaxið mjög fiskur um hrygg frá því að síðast var kosið til sveitarstjórna árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×