Innlent

Meirihlutinn í borginni fallinn samkvæmt könnun Gallup

Birgir Olgeirsson skrifar
Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Vísir/vilhelm
Meirihluti Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata í Reykjavík er fallinn, ef marka má nýja könnun sem Gallup vann fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Þar er niðurstaðan sú að Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í Reykjavík en hann mælist með 28,3 prósenta fylgi. Samfylkingin kemur fast á hæla Sjálfstæðisflokksins með 26 prósenta fylgi en Píratar eru með 11 prósent, Viðreisn 8,7 prósent, Vinstri græn 6,2 prósent, Miðflokkurinn 5,8 prósent og Flokkur fólksins með 3,8 prósent.

Sé eitthvað að marka könnunina verða sjö flokkar í borgarstjórn en næsti flokkur inn samkvæmt þessari könnun yrði Sósíalistaflokkurinn sem mælist með 3,4 prósenta fylgi en 2,9 prósent sögðust ætla að kjósa Framsóknarflokkinn.

Tekið er fram í frétt Ríkisútvarpsins af þessari könnun að aðrir flokkar mælist með 3,8 prósenta fylgi samanlagt en af þeim sem tóku þátt sagðist enginn ætla að kjósa Frelsisflokkinn og einn Íslensku þjóðfylkinguna. Þrír sögðust ætla að kjósa Höfuðborgarlistann, fjórir Borgina okkar Reykjavík, sex Karlalistann, ellefu Alþýðufylkinguna og sautján Kvennahreyfinguna.

Samkvæmt könnuninni geta aðeins Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn myndað tveggja flokka meirihluta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×