Innlent

Píratar bjartsýnir á að ná fimm til sex mönnum inn í borginni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Borgarlína, þétting byggðar og fleiri stúdentaíbúðir er meðal þess sem Píratar vilja berjast fyrir í Reykjavík. Oddviti flokksins kveðst bjartsýnn á að ná fimm til sex mönnum inn og segist reiðubúinn að vinna með öllum flokkum, en líklegast ekki Sjálfstæðisflokknum. Píratar kynntu stefnumál sín fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í dag.

Dóra Björt Guðjónsdóttir Oddviti flokksins segir fimm þætti vera í öndvegi. Píratar vilji auka traust á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins, efla menningu og huga að málefnum ungs fólks, barnafjölskyldna og jaðarsettra hópa. Þá eru umhverfismál og þétting byggðar Pírötum ofarlega í huga.

„Ungt fólk í dag tekur sjaldnar bílpróf en það gerði áður þannig að skipulag á forsendum einkabílsins er einfaldlega skipulag á forsendum eldri kynslóða. Þannig að þétting byggðar og það að styðja við góðar almenningssamgöngur er eitthvað sem að skiptir ungt fólk gríðarlega miklu máli,“ segir Dóra Björt.

Þá vilja Píratar fjölga stúdentaíbúðum og hækka laun grunn- og leikskólakennara, en þar verði ríkið að koma inn. Þá kveðst hún reiðubúin að mynda meirihluta með flestum flokkum, að einum frátöldum. „Við höfum talað um það að við getum unnið með fólki sem getur unnið með öðrum flokkum og við höfum nefnt einn flokk sem hefur í raunninni útilokað okkur frá samstarfi með sinni hegðun og það er Sjálfstæðisflokkurinn,“ segir Dóra. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.