Fótbolti

Mancini yfirgefur Zenit │ Að taka við Ítölum?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mancini að yfirgefa Zenit til að taka við Ítalíu?
Mancini að yfirgefa Zenit til að taka við Ítalíu? vísir/getty
Ítalski knattspyrnustjórinn Roberto Mancini og rússneska úrvalsdeildarliðið Zenit St. Petersburg hafa komist að samkomulagi um starfslok Mancini og mun hann stýra liðinu í síðasta skipti í dag þegar lokaumferðin í Rússlandi fer fram.

Mancini tók við Zenit síðasta sumar og gerði þá þriggja ára samning við rússneska stórliðið en hefur nú samið um starfslok. 

Zenit olli töluverðum vonbrigðum á tímabilinu og náði ekki að vinna sér inn sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð þar sem liðið mun enda í fjórða eða fimmta sæti rússnesku deildarinnar.

Þó Mancini hafi gert risasamning við Zenit fyrir tæpu ári síðan þarf rússneska félagið ekki að greiða honum neinar bætur í kjölfar starfslokanna að því er segir í yfirlýsingu félagsins þar sem um sameiginlega ákvörðun er að ræða.

Ítalskir fjölmiðlar fullyrða að Mancini verði ráðinn landsliðsþjálfari Ítalíu á allra næstu dögum en Gian Piero Ventura var látinn taka pokann sinn hjá ítalska knattspyrnusambandinu eftir að liðinu mistókst að vinna sér sæti á HM í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×