Fótbolti

Sara Björk og stöllur hennar þýskir meistarar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigurvegari
Sigurvegari vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, er þýskur meistari í knattspyrnu annað árið í röð eftir að lið hennar, Wolfsburg, vann 2-0 sigur á Essen í þýsku úrvalsdeildinni í dag en enn er tveimur umferðum ólokið í deildinni.

Það var hin bandaríska Ella Masar McLeod sem sá um að innsigla sigur Wolfsburg með tveimur mörkum í upphafi síðari hálfleiks. Ella fékk svo að líta rauða spjaldið skömmu fyrir leikslok.

Sara Björk var ekki í leikmannahópi Wolfsburg í dag en hún hefur verið í lykilhlutverki á miðjunni hjá Wolfsburg og leikið alla deildarleiki liðsins þar til í dag. Stór verkefni bíða Wolfsburg þar sem bikarúrslitaleikur og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er næst á dagskrá hjá Söru og stöllum hennar.

Sara Björk er 27 ára gömul. Hún hefur verið afar sigursæl síðan hún hélt utan í atvinnumennsku en hún varð fjórum sinnum sænskur meistari með Rosengard áður en hún færði sig um set til Þýskalands, þar sem hún hefur nú unnið deildina tvívegis á fyrstu tveimur tímabilum sínum með Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×