Fótbolti

Eitt stærsta félag Ísraels bætir Trump við nafn félagsins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þessi mynd fylgdi tilkynningunni um nafnabreytinguna.
Þessi mynd fylgdi tilkynningunni um nafnabreytinguna. beitar
Margir í Ísrael eru himinilifandi með að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og vilja sýna stuðning sinn í verki.

Þeirra á meðal er knattspyrnuliðið Beitar Jerusalem sem hér eftir mun heita Beitar Trump Jerusalem til þess að heiðra Bandaríkjaforseta sem opnaði einmitt sendiráð í borginni í dag.

„Trump var mjög hugrakkur að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg landsins. Hann hefur ekki bara sýnt hugrekki heldur líka sanna ást á fólkinu í Jerúsalem,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.

„Eitt af helstu kennimerkjum Jerúsalem er okkar félag og til þess að heiðra forsetann hefur verið ákveðið að breyta nafni félagsins í Beitar Trump Jerusalem. Við elskum forsetann og við munum vinna.“

Þó svo félagið hafi ákveðið að vinna með þetta nýja nafn út á við þá verður það ekki löglegt í deildinni nema knattspyrnusamband Ísraels leggi blessun sína yfir gjörninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×