Innlent

Dagvistun barna er eitt af stóru málunum á Akureyri

Höskuldur Kári Schram skrifar

Dagvistun barna er eitt af stóru málunum á Akureyri fyrir komandi kosningar en íbúum hefur fjölgað nokkuð hratt á undanförnum misserum sem hefur skapað vandræði á leikskólum bæjarins.

Akureyrarbær er fjölmennasta sveitarfélagið fyrir utan höfuðborgarsvæðið með rúmlega 18 þúsund íbúa. Hér verða sjö framboðslistar í boði í komandi kosningum. Þetta eru Píratar, Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Framsókn, L-listinn, Vinstri græn og Miðflokkur.

Framsókn, Samfylking og L-listinn mynda núverandi meirihluta en könnun sem Háskólinn á  Akureyri gerði nýlega fyrir Vikudag bendir til þess að meirihlutinn sé fallinn. Oddvitar nefna dagvistunarmál  sem eitt af stóru málunum fyrir komandi kosningar.

„Þetta fór í tómt tjón í fyrra og það var töluvert af fólki sem lenti í vandræðum og var verið að koma börnum fyrir í nágranna sveitarfélögum fyrir vikið. En við viljum leysa þetta með þeim einfalda hætti að taka 12 mánaða börn inn í leikskóla og taka þau þá inn strax og fæðingarorlofi lýkur enda er ríkið búið að lofa því að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Þá ætti þessari óvissu að vera eytt og fólk ætti að geta gengið að því tryggu að það komi barninu inn þegar það verður 12 mánaða,“ segir Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokks.

„Þetta voru vaxtarverkir. Það fluttu mun fleiri í bæinn heldur en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir og það kom leiðinda tímabil þar sem 18 mánaða börn komust ekki inn á leikskóla og það má ekki gerast og fólk þarf að læra svolítið af reynslunni þar og hafa meira svigrúm. Svo síðan leggja áherslu á að ná inn 12 mánaða börnum og  hvetja síðan ríkisvaldið til að fara með fæðingarorlofið upp í 12 mánaða og brúa þannig bilið,“ segir Hilda Jana Gísladóttir oddviti Samfylkingar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.