Fótbolti

Rúnar Alex í liði umferðarinnar eftir besta dag lífs síns | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson gleymir aldrei 11. maí.
Rúnar Alex Rúnarsson gleymir aldrei 11. maí. vísir/getty
Föstudagurinn 11. maí var stórkostlegur dagur í lífi íslenska landsliðsmarkvarðarins Rúnars Alex Rúnarssonar.

Vesturbæingurinn, sem spilar með Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni, var valinn í íslenska HM-hópinn síðastliðinn föstudag og sama kvöld varði hann vítaspyrnu og var maður leiksins í sigri á Horsens í 34. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar.

Rúnar var frábær í leiknum og varði vítaspyrnu í stöðunni 2-0 á 66. mínútu sem var eins gott því að Horsens náði að koma boltanum framhjá íslenska markverðinum einni mínútu fyrir leikslok. Nordsjælland vann, 2-1.

Rúnar er í liði umferðarinnar hjá Tipsbladet.dk fyrir frammistöðu sína í leiknum en í umsögn um hann segir að spennandi verði að sjá hvort Rúnari taki byrjunarliðssætið af Hannes Þór Halldórssyni sem gaf Helsingör mark í umspilsleik á móti Randers.

Aftur á móti er tekið fram að Hannes bjargaði nokkrum sinnum vel í leiknum. Hannes og félagar eru í harðri lífsbaráttu í deildinni en Rúnar og hans menn í Nordsjælland eru í harðri baráttu við FCK um síðasta Evrópusætið í meistaraumspilinu.

Hér að neðan má sjá vítaspyrnuna sem Rúnar Alex varði þennan mikla hátíðardag í lífi markvarðarins, 11. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×