Erlent

Gina Haspel nýr forstjóri CIA fyrst kvenna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gina Haspel er nýr forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar.
Gina Haspel er nýr forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar. Vísir/AFP
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag tilnefningu Ginu Haspel til stöðu forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Haspel er þar með fyrsta konan til að gegna starfinu.

Tilnefning Haspel hefur mætt nokkurri andstöðu. Hún stýrði leynifangelsi CIA í Taílandi árið 2002 þar sem grunaðir hryðjuverkamenn voru beittir vatnspyntingum. Hún tók einnig þátt í að eyða myndbandssönnunargögnum um pyntingarnar árið 2005. Haspel hefur gefið það út að hún hyggist ekki endurvekja áðurnefndar pyntingaáætlanir leyniþjónustunnar.

Sjá einnig: Konan sem á að stýra CIA tengist „svartasta kaflanum“ í sögu Bandaríkjanna

54 þingmenn greiddu atkvæði með tilnefningu Haspel í dag, þar af sex Demókratar, en nær allir þingmenn Repúblikanaflokksins höfðu lýst yfir stuðningi við tilnefningu hennar. 45 greiddu atkvæði á móti tilnefningunni.

Haspel er 61 árs og hefur gegnt stöðu aðstoðarforstjóra CIA síðan í febrúar 2017. Hún tók við sem starfandi forstjóri í lok apríl síðastliðnum en Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði þá skipað þáverandi forstjóra, Mike Pompeo, í stöðu utanríkisráðherra í stað Rex Tillersons.

Þá óskaði Trump Haspel til hamingju með nýja starfið á Twitter-reikningi sínum í kvöld.


Tengdar fréttir

Væntanlegur yfirmaður CIA vildi draga útnefninguna til baka

Gina Haspel, sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur útnefnt til embættis forstjóra Bandarísku leyniþjónustunnar bauðst um helgina til þess að stíga til hliðar vegna ótta um að hart yrði sótt að henni í staðfestingaryfirheyrslum bandaríska þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×