Innlent

Turnarnir tveir myndu báðir tapa fylgi frá síðustu kosningum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eyþór Arnalds og Dagur B. Eggertsson þurfa að kljást við fjölda flokka um fylgið í höfuðborginni.
Eyþór Arnalds og Dagur B. Eggertsson þurfa að kljást við fjölda flokka um fylgið í höfuðborginni. Vísir
 „Það kemur á óvart hvað hún er ólík öðrum könnunum,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar, um könnun sem Fréttablaðið og frettabladid.is gerðu á fylgi flokkanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

„Við sjáum þarna miklar sveiflur á fylgi en það er líka hátt hlutfall sem er ekki að svara. Annaðhvort eru miklar sveiflur á fylginu eða þá að fólk er ekki að gefa sig upp,“ bætir Eyþór við. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,4 prósenta fylgi í könnuninni sem gerð var í fyrrakvöld. Þegar Fréttablaðið og frettabladid.is könnuðu fylgið 24. apríl síðastliðinn var Sjálfstæðisflokkurinn með rúmlega 30 prósent og hefur því misst verulegt fylgi á tæpum hálfum mánuði. Það yrði líka lakari árangur en í kosningunum árið 2014 þegar flokkurinn fékk 25,7 prósent.

Sjá einnig: Afgerandi forysta Samfylkingar

Samfylkingin mælist með 30,5 prósenta fylgi í könnuninni og bætir við sig tæpum fimm prósentustigum milli kannana. Flokkurinn nær þó ekki sama fylgi og í kosningunum 2014, þegar hann fékk 31,9 prósent gildra atkvæða upp úr kjörkössunum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, lýsti ánægju með niðurstöðu könnunarinnar í samtali við Bylgjuna í gær.

„Já, þetta er sterk könnun fyrir meirihlutann og sterk könnun fyrir Samfylkinguna sem ég er innilega ánægður með. Ég held að það séu að teiknast upp býsna skýrir valkostir í kosningunum, þar sem við stöndum fyrir þróun Reykjavíkur í græna átt. Í átt að fjölbreyttari og áhugaverðari borg sem er jafnframt borg fyrir alla,“ sagði Dagur. 


Tengdar fréttir

Afgerandi forysta Samfylkingar

Samfylkingin, VG og Píratar gætu myndað meirihluta ef kosið við til borgarstjórnar núna. Samfylkingin er stærsti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn næststærstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×