Innlent

Wall Street Journal rifjar upp hlut Geirs Haarde í hruninu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í Landsdómi í mars 2012.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í Landsdómi í mars 2012. Vísir/Vilhelm

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er í viðtali við bandaríska blaðið Wall Street Journal í dag. Í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá efnahagshruninu er fastur liður hjá blaðinu að kanna hvar helstu leikendur í því eru staddir í dag og hvað þeir eru að gera.

Í viðtalinu kemur fram að Geir sé enn í áberandi stöðu fyrir landið sem sendiherra Íslands í Washington. Það sé ólíkt öðrum embættismönnum og forstjórum sem hafi látið lítið fyrir sér fara eftir bankahrunið. Hann segir þó í viðtalinu að hann taki ekki lengur ákvarðanirnar og að hann sé kominn í rólegra starf.

Þá er rifjað upp samband íslenskra ráðamanna við Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og að Brown hafi ásakað ríkisstjórn Geirs um að brjóta gegn lögum með ákvörðunum sínum. Geir hafi ávallt neitað því.

Geir er einnig spurður út í þá ákvörðun Landsdóms um að sakfella hann fyrir að hafa ekki haldið nægilega marga ríkisstjórnarfundi um mikilvæg mál í aðdraganda kreppunnar. Segir hann að ákæran hafi verið af pólitískum toga. „Ákæran var pólitísk af hálfu þingsins. Þegar Lehman bankinn féll þá var ekki margt sem við gátum gert, það var allt að fara niður á við alls staðar,“ segir Geir í samtali við WSJ.

Þá nefnir fyrrverandi forsætisráðherrann að fólk sem hafi átt þátt í hruninu hafi verið dæmt í fangelsi. „Maður spyr sig hvers vegna það gerðist ekki í Bandaríkjunum,“ segir hann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.