Innlent

Kominn tími á að þetta hefðist

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og um félagsþjónustu sveitarfélaga voru samþykkt í gær.  Nýju lögin gera notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) að helsta þjónustuformi við fatlað fólk. Hefur samþykkt frumvarpsins verið fagnað.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir mikla gleði og ánægju ríkja með samþykktina.

„Þetta er gleðidagur. Þetta var nærri tíu ára barátta þannig að það var kominn tími á að þetta hefðist,“ segir Þuríður. Hún segist að auki hamingjusöm með það hversu gott samráð hafi verið við gerð frumvarpsins.

„Þetta færir fötluðu fólki mikil og aukin réttindi til sjálfstæðs lífs og til að geta ráðið hverjir aðstoða það og vinna hjá því. Þannig að þetta breytir gríðarlega miklu. Þetta er til þess fallið að auka sjálfstæði og efla einstaklinginn,“ segir Þuríður.

Landssamtökin Þroskahjálp birtu yfirlýsingu í gær þar sem samþykkt frumvarpsins var fagnað. „Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessari lagasetningu því að með henni eru margvísleg mannréttindi fatlaðs fólks mun betur tryggð en í núgildandi lögum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Nefnir Þroskahjálp til dæmis réttindi fatlaðra barna, rétt til sjálfstæðs lífs, meðal annars með NPA, og réttinn til að ráða búsetu sinni.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×