Erlent

Innanríkisráðherra Breta segir af sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Amber Rudd, fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands.
Amber Rudd, fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, hefur sagt af sér vegna Windrush-málsins svokallaða. Það mál snýst um kynslóð innflytjenda frá Jamaíka og framkomu yfirvalda í þeirra garð. Ráðuneyti hennar hafði sett sér markmið um að vísa ákveðnum fjölda innflytjenda á brott og hafði Rudd verið margsaga um aðkomu sína að því markmiði.



Guardian birti í dag bréf frá Rudd til Theresu May, forsætisráðherra, sem sent var í janúar í fyrra. Þar segir Rudd að hún ætli sér að færa fjárveitingar frá almennri löggæslu til þess að vísa mun fleiri innflytjendum frá landi en gert hefur verið á síðustu árum.



Rudd hafði áður sagt að ráðuneytið hefði ekki sett slík markmið. Hún breytti síðan sögu sinni og sagðist ekki hafa vitað af þeim. Eftir að Guardian birti minnisblað um áðurnefnd markmið ráðuneytisins sagðist hún aldrei hafa séð það og svo birti Guardian áðurnefnt bréf nú í kvöld sem virðist hafa verið kveikjan að afsögn Rudd.



Þessar aðgerðir komu verulega niður á innflytjendum frá Jamaíka sem settust að í Bretlandi á fimmta og áttunda áratug síðustu aldar. Þau höfðu verið skilgreind sem ólöglegir innflytjendur og hafði verið meinaður aðgangur að heilbrigðisþjónustu og ýmsu öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×