Fótbolti

Buffon stimplaði sig út eins og Zidane fyrir tólf árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon segir Michael Oliver sína skoðun.
Gianluigi Buffon segir Michael Oliver sína skoðun. Vísir/Getty
Það gleymist seint hvernig Zinedine Zidane endaði frábæran fótboltaferil sinn og það lítur út fyrir að einn endalok eins besta markvarðar allra tíma verði á svipuðum nótunum.

Gianluigi Buffon endaði fótboltaferillinn sinn á stóra sviðinu í gærkvöldi þegar hann var rekinn útaf í uppbótartíma í seinni undanúrslitaleik Juventus og Real Madrid í Meistaradeildinni.

Buffon missti algjörlega stjórn á sér þegar Michael Oliver dæmdi vítaspyrnu á Juventus í uppbótartíma þegar Juventus var búið að vinna upp þriggja marka forystu Real og allt stefndi í framlengingu.

Cristiano Ronaldo skoraði úr vítaspyrnunni og Real Madrid tryggði sér með því sæti í undanúrslitunum.  





Það er vel hægt að líkja endalokum Gianluigi Buffon við þau hjá Zinedine Zidane á HM í Þýskalandi fyrir tólf árum.

Zidane fékk þá rautt spjald í úrslitaleiknum á móti Gianluigi Buffon og félögum í ítalska landsliðinu og Frakkar töpuðu í vítakeppni.

Nú var það Buffon sem fékk rautt spjald í leik á móti liði Real Madrid sem er einmitt þjálfað af umræddum Zinedine Zidane.





Gianluigi Buffon ætlaði sér að enda ferilinn á HM í Rússlandi í sumar en ítalska landsliðið komst ekki þangað.

Hann dreymdi um að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn á ferlinum en ekkert verður að því þökk sé dómi Michael Oliver í gærkvöldi.

Gianluigi Buffon á eftir að spila leiki heima fyrir þar sem liðið er á toppnum í deildinni og komið í bikarúrslitaleikinn.

Buffon getur því endað ferilinn sem tvöfaldur meistari en ferill hans í alþjóðlegum fótbolta endaði hinsvegar með rauðu spjaldi á Santiago Bernabeu í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×