Erlent

Filippus undir skurðarhnífinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Filippus fagnar 97 ára afmæli í sumar.
Filippus fagnar 97 ára afmæli í sumar. Vísir/Getty
Filippus prins, hertoginn af Edinborg, og eiginmaður Elísabetar II Bretadrottningar, mun fara í mjaðmaaðgerð á sjúkrahúsi í Lundúnum síðar í dag.

Í tilkynningu frá Buckingham-höll kemur fram að prinsinn hafi verið fluttur á spítala Játvarðs VII í Marylebone, síðdegis í gær, þar sem hann hefur dvalið í aðdraganda aðgerðarinnar.

Breskir fjölmiðlar segjast ekkert geta fullyrt nákvæmlega um heilsu Filippusar en hann hætti öllum opinberum erindagjörðum í maí á síðasta ári. Þó er talið að fjarvera hans á páskaathöfn sem fram fór í Windsor um helgina kunni að skýrast af mjaðmavandræðunum.

Sjá einnig: Filippus prins hættir öllum opinberum erindagjörðum

Þá var hann jafnframt fjarverandi við tvær aðrar uppákomur í Windsor kastala, þann 22. mars og svo aftur viku síðar. Hvort mjaðmaheilsa prinsins skýri þetta allt skal þó ósagt látið en Buckingham-höll hefur heitið því að upplýsa almenning þegar konungsfjölskyldan telur það við hæfi.

Það skyldi þó engan undra að Filippus vilji vera í toppstandi næstu vikurnar enda dagskrá prinsins nokkuð þétt. Vilhjálmur prins, barnabarn Filippusar, og eiginkona hans Katrín eiga von á sínu þriðja barni í apríl og Harry, sem einnig er barnabarn Filippusar, gengur að eiga Meghan Markle við hátíðlega athöfn í maí.

Þá mun Fillipus jafnframt fagna 97 ára afmæli í sumar. Elísabet Bretadrottning virðist þó enn vera við hestaheilsu, 92 ára gömul.

Filippus heimsótti Ísland árið 1964 og í spilaranum hér fyrir neðan má sjá skemmtliegt myndband frá heimsókninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×