Erlent

Öryggisráðið hafnaði kröfu Rússa

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Utanríkisráðuneyti Breta segir yfirvöld enn telja Rússa hafa gert árásina og að sú niðurstaða byggi á samansafni upplýsinga.
Utanríkisráðuneyti Breta segir yfirvöld enn telja Rússa hafa gert árásina og að sú niðurstaða byggi á samansafni upplýsinga. Vísir/AFP
Kröfu Rússa á fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í nótt var hafnað en þeir vildu fá ráðið til að álykta um að Bretar skyldu rannsaka taugaeitursárásina á Skripal feðginin í Salisbury á dögunum, í samstarfi við Rússa.

Bretar saka Rússa um að hafa staðið á bakvið árásina, en Sergei Skripal er fyrrverandi njósnari sem dæmdur var í Rússlandi fyrir njósnir en síðar sendur til Bretlands. Hann hafði komið sér fyrir í Salisbury ásamt dóttur sinni en fyrir fimm vikum fundust feðginin illa haldin eftir að eitrað hafði verið fyrir þeim. Rússar neita allri aðild að málinu og krefjast þess að fá aðgang að rannsókninni. Því hafna Bretar algerlega og hafa fengið vestræn ríki, þar á meðal Ísland, í lið með sér til að fordæma Rússa.

Fjöldi rússneskra diplómata hefur verið rekinn heim í mótmælaskyni og Rússar hafa svarað í sömu mynt. Rússar benda á að þótt eitrið sem notað var í árásinni hafi verið fundið upp í Rússlandi segi það ekkert um sekt þeirra í málinu. Karen Pierce, sendiherra Breta hjá Sameinuðu þjóðunum sagði á móti að það væri fáránlegt að hleypa Rússum, sem væru að öllum líkindum gerendurnir í málinu, inn í rannsóknina. Það væri, eins og hún orðaði það, eins og ef Scotland Yard, lögreglan í Bretlandi myndi bjóða Moriarty, illmenninu í sögunum um Sherlock Holmes í heimsókn. Sergei Skripal er enn í alvarlegu, en stöðugu, ástandi en Julia er sögð á batavegi.


Tengdar fréttir

Pútín býst við heilbrigðri skynsemi

Rússar sigri hrósandi eftir ummæli framkvæmdastjóra rannsóknarstofu breska hersins um eitrið sem Sergei Skrípal var byrlað. Fóru fram á neyðarfund Efnavopnastofnunarinnar. Bretar standa þó enn fast á sínu og bandamennirnir standa við bakið á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×